21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Mér hefir satt að segja aldrei þótt skemtilegt að vera við „executionir“ og ætlaði eg mér því helzt ekki að taka þátt í umræðunum. En nokkur orð sem eg hefi heyrt hér falla knýja mig til að tala.

Hv. þm. Borgf. (Kr. J.) sagði að erindisbréf ráðunautsins væri lögsett með fjárlögunum og þess vegna væri ekki auðið fyrir stjórnina að breyta því. Það getur verið rétt, en er það þá ekki skylda stjórnarinnar að sjá um að erindisbréfinu eins og það nú er „lögsett“, sé fylgt í öllum atriðum? Meðal annars varðar það heimköllun og afsetningu ef það er brotið. Nú er það upplýst af hv. þm. Borg., að ráðunauturinn hafi komið hingað til landsins og dvalið hér lang vistum án leyfis stjórnarinnar.

Háttv. viðskiftaráðunautur sagði sjálfur, að heimili sitt ætti að vera í Hamborg. (Bjarni Jónsson: Það hefi eg aldrei sagt). Jú, hann sagði það þegar hann var að afsaka að hann hefði reiknað ferðakostnað til Kristjaníu. (Bjarni Jónsson: Eg hefi aldrei afsakað það). Þingmaðurinn getur komið með sínar athugasemdir á eftir. En svo mikið veit eg, að til Hamborgar hefir hann ekki komið langa lengi.

Það var að heyra á ræðu háttv. þm. Borg. (Kr. J.), að hann hefði verið svo mikið í burtu og annnar gengt ráðherraembættinu í hans stað, svo að hann vissi ekki hvort reikningar viðskiftaráðunautsins væru úrskurðaðir og borgaðir. Eg vildi óska, að þeir væru það ekki. En ef þeir hafa verið borgaðir hlýtur það að vera á einhvers ábyrgð. Það getur engum dulist, að það var rétt sem háttv. fyrirspyrjandi (V. G.) sagði, að ferðakostnaður ráðunautsins er gífurlegur. 1.500 kr. kostar ferð hans frá Kaupmannahöfn til Kristjaníu og til baka aftur. Sú ferð kostar í raun og veru 48 kr. á gufuskipi en 52 kr. ef farið er á járnbraut. Fyrir þjórfé, það er líklega það sem hann drekkur fyrir, reiknar hann sér 730 kr. á ári eða 2 kr. á dag. Þetta er því einkennilegra þar sem fyrir liggur úrskurður stjórnarinnar um, að ferðakostnað skuli ekki greiða þegar hann dvelur til langframa á einhverjum stað, enda er það eðlilegt, því að engin ástæða er til að ætla, að hann eti meira þegar hann er í Kristjaníu eða Kaupmannahöfn en þegar hann er í Hamborg. Yfirleitt eru þessir ferðakostnaðarreikningar eitthvað það blygðunarlausasta sem eg hefi heyrt að komið hafi fram gagnvart landsjóði og nokkrum öðrum sjóði, og er þá mikið sagt.

Háttv. ráðunauturinn sagði, og það er ef til vill satt, að sér hefði verið bann að að fara með pólitík í útlendum blöðum. En hvað gerir hann þegar honum er bannað þetta ? Þá rýkur hann til og stofnar blað og lætur vini sína þýða í sænsk og norsk blöð það sem hann má ekki segja sjálfur erlendis. Það eru því einungis krókaleiðir til þess að gera það sem hann má ekki gera. Eitt af því sem ráðunauturinn, sendiherrann svokallaði, sagði, var það, að það væri ekki meira að hann hefði laun sín þó að hann sæti á þingi en aðrir embættismenn. Hann gætir ekki að því, að samkvæmt stjórnarskránni eru allir embættismenn skyldir til að sjá um rekstur embættis síns á sinn kostnað, meðan þeir sitja á þingi. Hvað gerir hann ? Hefir hann fengið nokkurn mann í sinn stað? Nei, hann vanrækir embættið — gegnir því alls ekki.

Eitt af því sem honum er gert að skyldu og hann hefir brotið, er það, að hann á að auglýsa í hverju landi, hvar hann er og hvað hann dvelji þar lengi. Eg skal segja honum hér dálitla sögu, sem eg hefi eftir einum góðum flokksbróður hans. (Bjarni Jónsson: Hver er það?). Eg get gjarna nefnt hann. Það var Ólafur Eyjólfsson skólastjóri. Í fyrra dvaldi hann í Hamborg og þurfti að snúa sér til viðskiftaráðunautsins til þess að fá einhverjar upplýsingar fyrir þýzkt firma. Hann símaði til Kaupmannahafnar spurði hvar viðskiftaráðunauturinn mundi niðurkominn, en enginn vissi. Hann símaði til danska ráðuneytisins, en það hafði ekki hugmynd um það. Þá símaði hann til íslenzku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn, en enginn vissi neitt um ráðunautinn. Helzt var haldið, að hann væri ein hversstaðar á Þýzkalandi. En svo þegar Ólafur er að leggja á stað frá Hamborg, þá rekst hann alt í einu á viðskiftaráðunautinn. Hann spurði hvar hann hefði haldið sig. „Ó, eg hefi verið hérna í Hamborg.“ (Bjarni Jónsson: Hvenær á þetta að hafa verið). Í fyrra. Eg efa ekki, að sagan er sönn. Eins og eg gat um, hefi eg hana eftir alkunnum flokksbróður viðskiftaráðunautsins sem eg veit ekki betur en að sé kunnur að því að vera sannorður og réttorður maður. — En hvað sem þessu líður, virðist mér ferðakostnaðurinn ægilegur. Hvar sem hann situr á hnettinum, reiknar hann sér ferðakostnað. Alt sem hann etur og drekkur og skemtir sér fyrir, það er alt ferðakostnaður. Eg fæ ekki skilið að þótt hámark ferðakostnaðarins sé sett 4.000 kr., þá sé ráðunauturinn skyldur til að éta það alt saman upp. Eg held frekar að hámarkið sé sett svona hátt til þess að standast þann kostnað sem leiddi af því ef ráðunauturinn þyrfti að bregða sér til Kína eða Japan til þess að grenslast eftir markaði fyrir íslenzka hesta. (Bjami Jónsson: Eða til Alaska). Já, til þess að útvega þar markað fyrir grásleppu.

Eg hjó eftir einu orði í ræðu hæstv. ráðherra (H. H.). Honum þótti lítil bending um framtíðina í tillögunni til rökstuddrar dagskrár, sem fyrirspyrjandinn las upp í enda ræðu sinnar. (Bjami Jónsson: Það hefir engin tillaga til rökstuddrar dagskrár verið lesin upp). Jæja, eg hefi að minsta kosti séð hana hér og lesið fyrir fám mínútum og þegar hún kemur fram, hefi eg hugsað mér, að flytja dálitla breytingartillögu við hana og í henni á að felast dálítil bending til hæstv. ráðherra (H. H.) um framtíðina.