21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Bjarni Jónsson:

Eg vænti þess, að því er til þessara umr. kemur, að eg fái að hafa jafnan rétt og þessi danski háskólakennari, meðan eg er hér enn á föðurlandi mínu.

Það, sem hann sagði um heimilisfang mitt í Hamborg, er alt gamalt. Eg hafði gert fyrirspurn til þáv. ráðherra og forstjórans fyrir skrifstofu Íslands í Khöfn, og ennfremur til þriðja mannsins, góðs lögfræðings og kunningja míns, sem er hér í deildinni, um það, hver áhrif það mundi hafa, ef eg ætti lögheimili í Hamborg. Töldu þeir hæpið að eg mundi þá fá haldið almennum réttindum hér heima, en tveir þeirra, sem eru lögfræðingar, sáu ekkert því til fyrirstöðu, að eg ætti lögheimili hér heima, þótt mér væri ákveðið starfsvið annarsstaðar, og síðan hefi eg ætíð átt fast heimili hér, kona mín hefir verið hér og eg hefi aldrei brugðið búi og mun halda áfram að búa hér, svo að hv. þm. Seyðf. (V. G.) mun verða annað til ánægju, en að eg missi kjörgengi af þeim ástæðum. Fyr mun hann missa það en eg.

Hann furðaði sig á því, að eg skyldi ekki hafa komið til Hamborgar síðasta ár, þar sem þó stjórnin hafi skipað mér bréflega að dvelja þar. Slíkt bréf hefi eg aldrei fengið, en einhvern tíma í marz-mánuði tjáði skrifstofustjórinn í Khöfn mér að ferðareikninga skyldi miða við Hamborg. En þetta var svo skömmu fyrir heimferð mína, að ekki gat komið til mála fyrir mig að fara þá til Hamborgar, enda átti eg þangað ekki brýnt erindi, og hafði auk þess aðrar ástæður til þess að fara hvergi, sem eg hefi tjáð stjórninni og hún tekið gildar, svo að óþarfi er fyrir hv. þingm. að fjargviðrast meira út úr þessu.

Að eg hafi verið hér í leyfisleysi 1911 er ósatt. Eg átti fyrst og fremst það erindi, sem hæstv. fyrv. ráðherra nefndi, að reyna að koma á sölusambandi, eða útflutningsfélagi, og starfaði að því. En aðalerindi mitt var viðvíkjandi skipagöngum til Svíþjóðar, og út af því máli fékk eg skrifleg svör frá um 60 íslenzkum kaupmönnum, og hafa þau síðan legið til athugunar hjá utanríkisráðherra Svía. Eru því nógir vottar að því, að eg átti fullkomlega erindi, og að þessi sakargift þm. er því heilaspuni.

Sama er að segja um hitt, er hann finnur sér til, að eg megi ekki fást við þingmál eða þjóðmál. Það kemur til af því að hann byggir á því, að eg sé verzlunar- en ekki viðskifta-ráðunautur. Hann hefir víst ekki lesið erindisbréf mitt. Þar stendur meðal annars að eg eigi að gefa upplýsingar um landið og alla þess hagi, og það hefi eg reynt að gera eftir föngum, þótt eg hafi ekki meira en svo haft frið til þess fyrir dönskum blöðum, sem hafa viljað telja ráðh. vorum trú um að eg færi þar með stjórnmálaundirróður, og mun þvaður þeirra mest komið frá íslenzkum kolapiltum, sem sverta vilja landa sína, þótt eg vilji ekki nefna nöfn þeirra, nema mjög sé að mér ekið. En ef þá langaði mikið til, gæti eg ef til vill hjálpað þeim um orð próf. Holms, kennara í sögu við Hafnarháskóla, um vissa menn, íslenzka. Annars svipar sumum íslenzkum mönnum í Khöfn undra mikið til Grikkja, sem búsettir voru í Rómaborg eftir að Grikkland komst undir Rómverja. Það er sama ættarmótið.

Þessi röksemdafærsla hv. þm., sem eg lýsti áðan, er gott dæmi um bardagaaðferð hans og hans líka. Fyrst er byrjað á því að gefa sér það, sem þarf að sanna, sem sé að eg sé eingöngu verzlunarráðunautur, og svo er bitið í skottið á sér og sannað að eg þessa vegna megi ekki gera þetta og þetta. — Þetta er nú það sem kallað er „circulus vitiosus“, eða hringavitleysa á íslenzku.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) vildi halda því fram, að blaðamenska sé atvinna. Það er rétt, að hún getur verið það, en hér er ekki svo ástatt, þó að eg gefi út lítið mánaðarrit, og jafnvel ekki þó að vel gengi.

Eg skal ekki deila um það við hann hvor okkar sé betri ritstjóri, en beri mitt blaðfyrirtæki sig ver, þá gæti það legið í því, að síður væri til þess stofnað í gróða skyni, en hjá honum. Eg hefi aldrei viljað vinna mér hagnað með því að sveigja til frá því sem eg hefi álitið rétt, og því geta mínar fjárreiður verið verri en þeirra, sem eru snúningaliðugri en eg. Hitt er satt, að eg hefi ætlað blaðið sérstaklega mér til stuðnings í starfi mínu, og flest sem það hefir flutt, hefir verið því viðvíkjandi. Eg hefi viljað að skoðanir mínar næðu eyrum sem flestra manna, svo að þeir þektu mig að fleiru en því einu, sem rógberar segja um mig.

Undarleg reikningsfærsla er það, ef hv. þm. heldur að síðasta atkv. muni vega meira en hið fyrsta, eða að til sé nokkurt sérstakt úrslita-atkvæði. Mál getur fallið eða unnist á eins atkvæðis mun, en engu skiftir hvort það er atkvæði Sigurðar eða Snjólfs. Hitt, að þessi maður hafi haft einskonar framsögum. réttindi öðrum fremur, eru bláber ósannindi. Eg veit ekki hvaðan honum hefðu átt að koma þau; frá flokknum komu þau ekki, enda var hann þá víst stokkinn úr honum. Hann hefir sagt þetta einungis fyrir sjálfs sín hönd, en einkis annars manns heimild eða umboð haft til þess. Og ef hv. þm. Sfjk. (V. G.) heldur öðru fram, þá er það órétt, og víst er um það, að aldrei fær hann umboð annara en sjálfs sin til þess að gera grein fyrir atkv.

Eg heyri að hv. sessunautur minn gegnir fram í og vefengir þetta, og mun það koma af því, að hann er svo formfastur, eða þá öllu heldur hinu, að hann er nú svo hlýðinn og auðsveipur sínum foringja. En eg get frætt hann um það, að flokksforingi getur aldrei verið margfaldur í roðinu, þegar hann kemur ekki fram fyrir flokksins hönd — nema þá hann sé það í þeim skilningi, sem hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) er það, sem sé að rúmmáli.

Þá vildi hann vefengja að bera mætti mig saman við aðra embættismenn, sem hér sitja á þingi án þess dregið sé af launum þeirra. Hér kemur fram hjá honum sams konar „petitio principii“, 60 eins og áður. Hann bítur í skottið á sér, eins og hann er vanur, gefur sér fyrst að eg geti ekki gegnt mínu starfi hér, og sannar svo út frá því. En ef halinn dettur nú af, hvað þá? Því fer svo fjarri, að viðskiftaráðunautur megi ekki vera hér, að oft getur verið brýn nauðsyn á honum hér, ekki síður en annars staðar. Dæmi um það nefndi eg frá 1911, og eg er nú hér í svipuðum erindum og þá, og get eins vel gefið þeim mönnum upplýsingar, sem til mín leita, þótt eg sitji á þingi, enda hafa margir neytt þess. Og eg hugsa að þessi vísindamaður viti það, að auk þingsetunnar geta menn haft fleiri störf á hendi. Þannig hefir hann t. d. gefið sér tíma til þess, að læra utan að skýrslu rannsóknarnefndarinnar frá því í fyrra, og er sú viðleitni alls lofs verð.

Viðskiftaráðunauturinn má eigi einungis vera hér heima, heldur á hann og að vera það, þegar þörf er á og stjórnarráðið leyfir. Og mér hefir samið vel við þær stjórnir, sem eg hefi átt að vinna saman við, og býst eg við að svo muni enn verða, þótt eg hafi aðra skoðun á landsmálum, en hæstv. ráðh. sem nú er. Og það er rangt, sem hv. þm. segir, að óheppilegt sé að viðskiftaráðunautur sitji á þingi. Hver hefði t. d. átt að rísa upp á móti „lotteríinu“ þeirra, ef eg hefði ekki orðið til þess? (Valtýr Guðmundsson: Hv. þm. er á annari skoðun nú, en í marz.)

Eg heyri að hv. þm. er hér að burðast með nokkuð, sem hann skilur ekki sjálfur. Vöruhappdrætti er annað en peningahappdrætti. Það sem hann er hér að vitna í, er það, að til orða kom að reyna að styðja íslenzkan iðnað með smáhappdrætti, á líkan hátt og áður hefir verið gert til þess að koma upp líkneski Jónasar Hallgrímssonar. Þar er áhættan sama sem engin, og þeir sem nokkuð leggja af mörkum, gera það að gamni sínu til þess að styðja gott fyrirtæki. Þetta er eitthvað annað, en að gera landið að lepp. En það er ekki furða, þótt honum skiljist þetta illa, þar sem hann hefir vissa von um að verða einn af 6 eftirlitsmönnum með peningahappdrættinu fyrirhugaða. Eg heyri að einhver spyr hvort það sé nú áreiðanlegt, og hygg eg það, eftir brosinu sem á hann kom um daginn, þegar eg færði það í tal við hann. Ekki hefir hann unnið sigur á þessu, heldur en öðru, þótt hann hafi leitað langt yfir skamt.

Þessi rökstudda dagskrá, sem fram er komin, er eins og annað úr þeirri átt. Hún miðar að því, að meina mér þingsetur, og skil eg ekki hvílíkt kapp flutn.m. leggja á þetta, þar sem ekki er nema um eitt þing að ræða, því að ekki geri eg ráð fyrir því, að hv. núv. meiri hl. fari að binda þessa fjárveitingu við mitt nafn á næsta fjárlaga þingi.