21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Lárus H. Bjarnason:

Væri það rétt hjá hv. þm. Borgf. (Kr. J.) að ákvæði núgildandi fjárlaga um viðskiftaráðunautinn hefðu undanþegið hann eftirliti stjórnarinnar og lagt hann algerlega undir eftirlit Alþingis, þá væri allar áskoranir til stjórnarinnar, um að hafa umsjón með því, að hann ræki starf sitt eins og vera ber, ónýtar og allsendis óviðeigandi. En eg er honum ekki samdóma um að þetta sé rétt. Hinsvegar er eg sammála fyrv. ráðh. (Kr. J.) og núv. ráðh. (H. H.) um það, að erindisbréf viðskiftaráðunautsins hafi verið löggilt með þessu ákvæði og að ráðherra geti því ekki umturnað því eftir vild.

Þess vegna getur till. hv. þm. Sfjk. (V. G.) ekki gengið fram. Í henni er skorað á landsstjórnina, eigi að eins að gæta þess að viðskiftaráðunauturinn ræki stöðu sína samkv. erindisbréfinu, heldur og samkvæmt „öðrum fyrirskipunum stjórnarinnar“. Ráðherra getur ekki annað gert en að gæta þess að viðskiftaráðunauturinn, brjóti ekki í bága við erindisbréfið og getur hann því ekki tekið við þessari tillögu.

Erindisbréfið bannar viðskiftaráðunautnum ekki þingsetu og á því ekki við að taka það upp í dagskrána að hann megi alls ekki fást við pólitík, þó eg hinsvegar sé á sömu skoðun og hv. þm. Sfjk. (V. G.), að pólitísk starfsemi geti ekki samrýmst starfi viðskiftaráðunautsins, og að hann mætti missast af þingi. En hitt á þingið að heimta af stjórninni að hún hafi eftirlit með að viðskiftaráðunauturinn fylgi erindisbréfinu, ekki sízt þar sem borið hefir á nokkrum eftirlitsskorti með honum af hendi fyrv. ráðherra

Eg álít því að dagskrána eigi að orða öðruvísi og vil leyfa mér að koma með svohljóðandi tillögu til rökstuddrar dagskrár:

„Í því trausti, að landsstjórnin gæti þess vandlega, að viðskiftaráðunauturinn ræki starf sitt samkvæmt erindisbréfinu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.