21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Skúli Thoroddsen:

Eg var í vafa um hvort eg ætti að tala, en finst þó eg verði að gera það til að mótmæla dagskrá hv. þm. Sfjk. (V. G.) og breytingartillögu hv. þm. S.-Múl. (J. Ó.), því eg lít svo á að, deildin gerði sér vanvirðu ef hún samþykti dagskrána jafnvel þó breytingartill. væri ekki með.

Meðan eg hlustaði á ræðu hv. þingm. Sfjk. (V. G.) var eg að velta því fyrir mér, hvort þessari fyrirspurn hefði valdið tilfinning fyrir rétti þjóðarinnar eða ekki og eg komst að þeirri niðurstöðu, að eitthvað annað hlyti að búa undir. Eg las það út úr orðum hans, að hér talaði maður, æstur af pólitískri gremju og jafnvel hefnihug í garð þm. Dal. (B. J.), svo full var ræða hans af rangfærslum. Hann sagði að enginn árangur hefði verið af starfi viðskiftaráðunautsins, en hann nefndi engin dæmi og þetta er því að eins órökstuddur sleggjudómur.

Það má vera kunnugt öllum lesandi mönnum, að viðskiftaráðunauturinn hefir einmitt vakið máls á ýmsum nýjum viðskiftum, t. d. við Noreg og Svíþjóð. Háttv. þm. sagði, að almenn óánægja væri með þjóðinni yfir viðskiftaráðunautnum. Væri þetta rétt, þá ætti óánægjan að hafa komið fram á þingmálafundum, en líti maður á fundargerðirnar, þá sést það að hvergi hefir neinni slíkri óánægju verið hreyft. Hitt er auðvitað að mótflokksmönnum hans hefir verið illa við viðskiftaráðunautsstarfið. Þeir voru á móti fjárveitingu til þess á báðum síðustu þingum, og blöð þeirra hafa altaf verið að hnýta í viðskiftaráðunautinn, en það getur varla kallast almenn óánægja hjá þjóðinni, þó að ritstjórar Lögréttu og Reykjavíkur og svoleiðis fuglar skrifi skammir í blöð.

Þá fann hv. þm. Seyðf. (V. G.) að því að skýrslur viðskiftaráðunautsins til stjórnarráðsins hafi stundum ekki verið dagsettar, staðsettar né undirskrifaðar. Hefir hann ekki leyfi til að hafa þá tilhögun á þessu eins og honum sýnist, eins og að dagsetja bréfið til stjórnarráðsins en ekki skýrsluna sem það fylgir.

Hv. þm. hélt því fram, að viðskiftaráðunauturinn hefði átt að halda sér frá pólitík; það átti hann einmitt ekki að gera. Það sem upprunalega lá til grundvallar fyrir því að þetta starf var stofnað var það, að sjálfstæðisflokkurinn fann ríkt til þess, að okkur væri nauðsyn á að hafa mann í útlöndum, sem gæti tekið svari okkar ef íslenzk mál væri rangfærð eða á okkur ráðist. Auðvitað vakti það jafnframt fyrir flokknum að viðskiftaráðunauturinn ynni að því, að koma á hagkvæmum verzlunarviðskiftum við önnur lönd, en hitt var aðalatriðið, að við hefðum mann í útlöndum, sem gæti sagt sannleikann um íslenzk mál. Og auk þess sem viðskiftaráðunautnum var kunnugt að flokkurinn vildi að hann skoðaði þetta sem aðalhlutverk sitt, þá hefir hann líka sjálfur pólitíska ábyrgð og á því að láta til sín heyra. Því á að heimta af honum frekar en öðrum starfsmönnum landsins að hann þegi um stjórnmál?

Háttv. þm. kallaði blað það sem viðskiftaráðunauturinn heldur út æsingablað, og auðvitað af þeirri ástæðu einni að honum er illa við það. Það mætti vitanlega alveg eins kalla Eimreiðina æsingablað. Þetta er bara glamurorð, sagt til að finna slagorð í röksemda stað.

Þá er það atriði, að fjárveitingin var stíluð upp á nafn þm. Dal. (B. J.). Það var eg sem kom því til leiðar að svo var gert, því eg bar fram tillögu um það á fundi í sjálfstæðisflokknum 1911. Og af hverju? Auðvitað af því, að eg treysti þessum manni til að gegna starfinu eins og eg vildi að því yrði gegnt, en ekki hinum og þessum prangara, sem stjórnin kynni að skipa í starfið í bitlinga skyni.

Hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) vill láta deildina gera sér þá vanvirðu, að samþ. dagskrá í þá átt, að ef stjórnin sjái sér ekki fært að setja viðskiftaráðunautinn af nú þegar, þá skuli hún sjá um að hann haldi sig hér heima eftirleiðis, til að gera skýrslur um störf sín o. s. frv. Þessi dagskrá er þannig löguð, að það er því líkara að hún sé samin af götustrákum en þingmanni. Auk þess heyrir þetta starf mjög lítið undir stjórnina. Ef hún setti viðskiftaráðunautinn af, þá mundi hann snúa sér til dómstólanna og þó þeir kæmust að þeirri niðurstöðu, að rétt hefði verið að víkja honum frá, þá hefði stjórnin enga heimild til að veita öðrum starfann. Deildin getur ekki verið þekt fyrir að samþykkja þessa dagskrá. Dagskrá hv. þingmanns Rvk. getur miklu frekar komið til mála, ef á annað borð á að samþykkja nokkra dagskrá.