21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Fyrirspyrjandi (Valtýr Guðmundsson):

Eg skal ekki tefja með löngu máli. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) þótti vera gerð lúsaleit í reikningunum. Ef að líkindum lætur, þá er von hér á öðrum reikningum og má mikið vera ef ekki þarf þar að gera flóaleit. (Hvaða reikningur er það?, var spurt). Það eru reikningarnir fyrir Rúðuförinni frægu sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fór.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Borg. (Kr. J.) sagði um pólitísk afskifti ráðunautarins, þá er það misskilningur, því að þó Alþingi hafi gert hann að viðskiftaráðunaut, þá hefir það aldrei leyft honum að verða þingmaður. Alþingi á ekki að dæma hvort hann hafi haft leyfi til að koma hingað, það er stjórnin, hún hefir eftirlitið, en viðvíkjandi þessu þá vildi eg leyfa mér að spyrja háttv. þm. Borg. (Kr. J.) hvernig stóð á því, að þegar viðskiftaráðunauturinn í fyrra ætlaði vestur í Dalasýslu, þá bannaði stjórnin honum að fara? Úr því að stjórnin hafði leyfi til, eða tök á að banna honum í einu tilfelli, þá hefir hann líka tök á að banna honum í öðrum tilfellum.

Um erindi hans, þá gat hann auðveldlega spurst fyrir um það bréflega, til dæmis til Kaupmannahafnarráðsins.

Annars skal eg nú ekki fara frekara út í það að svo stöddu.