21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Bjarni Jónsson:

Eg get eigi skilist við þetta mál án þess að taka saman helztu atriðin í þvargi þeirra þm. Sfjk. (V. G.) og 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.).

Þm. N.-Ísf. (Sk. Th) mælti það með réttu að ræða fyrirspyrjandans hefði verið samin af kala til mín. Og eg sannfærðist enn betur um það, er hann tók svo til orða, að eg ætti ekki að vera að „vasast í pólitik“. Þá datt mér í hug saga frá þeim tímum, er Valtýskan var í blóma og þessi þm. var voldugur á þingi. Þá sótti fátækur vísindamaður um styrk til Alþingis, en núverandi þm. Seyðfirðinga fekk því afstýrt að honum væri veittur styrkurinn. Þessi maður heitir Helgi Jónsson. Ásgeir Torfason spurði þingmanninn hvers vegna hann hafði farið þessu fram. Þá svaraði þm., að manninum hefði verið þetta mátulegt, „því að hann var að vasast í pólitík, sem honum kom ekkert við“. (Valtýr Guðmundsson: Þetta er nú víst Gróusaga). Nei, svo er eigi, enda mun það eigi lagt undir dóm Gróu sjálfrar. Þetta orðtæki sýndi mér að nú mundi þessi þingmaður ætla sér að vega oftar en um sinn í hinn sama knérunn, og er þó undarlegt af svo varkárum manni. Því að vel má hann vita, að honum meiri mönnum hefir það illa gefist.

Þeir geipuðu mikið um ferðakostnað minn, en alt var það rangt, er þeir sögðu. Þeir héldu því fram, að fæði og húsnæði ætti ekki að telja með. Slíkt getur engum komið til hugar, enda er hér helzt til að jafna um ferðakostnað ráðherra, er þeir fara til Danmerkur. Hitt er einkis vert, sem hv. þm. S.-Múl. (J. Ó.) var að tala um, að þar um væri skýrari ákvæði; höfuðatriðið er að hér stendur eins á, enda mundi Alþingi eigi hafa gert ráð fyrir að sá kostnaður gæti numið alt að 4.000 kr., ef það hefði lagt sama skilning í þetta sem þessir þm. Svo er og um allan heim, að menn reikna til ferðakostnaðar allar lífsnauðsynjar frá því þeir fara að heiman og þar til er þeir koma heim aftur. Og þá kem eg að athugasemdinni um kaffið, sem hv. þm. Sfjk. (V. G.) var að reyna fyndni sína á. Hún stafar nú einmitt af því, hve ríkt stjórnin gekk eftir, að eigi væri taldar nema lífsnauðsynjar í reikningum mínum. Ætti hún því fremur skilið lof en last af þessum umvöndunum. Nú hafði eg eigi dregið frá þeirri upphæð, sem eg hafði brúkað til fæðis, þá aura sem eg hafði varið til þess, sem segir í athugasemdinni, en lét þess getið, til þess að stjórnin gæti dregið frá ef hún vildi, eftir því sem við gætum gezkað á. Annars væri gott ef þm, vildi hjálpa stjórninni um eyðublöð handa viðskiftaráðunautnum, er hann gæti látið veitingahússþjóna skrifa á, hvers hann neytti og mætti þá úrskurða reikningana eftir því.

Þá hneykslaðist hann og á þjórfénu, og var þó ólíklegt um mann, sem verið hefir svo lengi erlendis. Má hann því vita, að til þess gengur þó ærið fé, er menn búa í veitingahúsum og borða svona hingað og þangað. Þykist eg vita að hann muni eigi ætlast til að viðskiftaráðunauturinn komi fram sem hundur. Eg hygg að hin alkunna sparsemi hans valdi miklu um, er honum vex þetta svo mjög í augum.

Þá vildi þm. Sfjk. (V. G.) ónýta fyrir mér samanburðinn á mér og öðrum starfsmönnum landsins, er taka full laun og sitja á þingi, með því að þeir hefði aðra fyrir sig, eða gæti sjálfir gengt starfi sínu, en það gæti viðskiftaráðunauturinn ekki, heldur legði niður starfið. Hann tók sér þessa sönnun létt, eins og fleiri. - Hann bítur í skottið á sjálfum sér og fer í hring, sem kallast hringvitleysa eða circulus vitiosus. Er sú rökleiðsla í því fólgin, að byggja á því, sem á að sanna, og leiða út af því heila röð af ályktunum. Hann gefur sér fyrst að viðskiftaráðunauturinn leggi niður niður starfann, þegar hann er heima og kemst svo auðvitað að þeirri niðurstöðu, sem hann langar til. En honum skauzt yfir að sanna, að eg gæti eigi gengt starfi mínu hér, enda er svo langt frá því, að eg er einmitt hér að gegna viðskiftaráðunautsstörfum.

Þeir hafa margtuggið það, að eg hafi verið í óleyfi hér 1911, en þá var eg einmitt í viðskiftaerindum hér, sem stjórnin viðurkendi réttmætt erindi. Eg fór heim þá, af því að tveir Svíar, sem mikið börðust fyrir skipagöngum milli Íslands og Svíþjóðar, skrifuðu mér, að helzt mundi fram ganga, ef eg færi heim og leitaði undirtekta kaupmanna hér. Þessir menn voru Ragnar Lundborg, ritstjóri í Karlskrona, Íslendingum að góðu kunnur, og Reutersvard, sá er hingað kom sem verzlunarerindreki Svía. Eg átti þá tal við fjölda manna um málið og fór þá umhverfis landið í þessum erindum. Hafði eg þá með mér skrifleg svör frá hérumbil 60 kaupmönnum, og hafa þau síðan legið til athugunar hjá utanríkisráðherra Svía. Var það eigi mín sök, að eigi hefir enn þá orðið neitt úr þeim skipagöngum, en þetta er ljóst dæmi þess, að viðskiftaráðunauturinn getur gegnt starfi sínu, þótt hann sé hér, eða öllu heldur ekki unnið sitt verk nema hann sé hér. Þess vegna var það ástæðulaus gauragangur, er sum blöð og sumir mótstöðumenn mínir höfðu þá, enda gerður til að vera kosningabrella. En nú er öllum kunnugt, hvernig í þessu lá, nema spyrjandanum. Hann hefir lesið upp ársgamlar blaðaárásir í von um að finna höggstað á mér, þótt hann geti nú engan fundið.

Fyrverandi ráðherra sagði rétt, að hann lagði fyrir mig að útvega skýrslur um fiskmarkað í Argentína. Í Noregi fengust engar skýrslur um það, því að þeir vissu að eg mundi vilja fá þeim keppinaut. En þeir halda sem mest leyndu, hvernig þeir verka fiskinn. Sneri eg mér því til ræðismanns Argentínu og fékk hjá honum skýrslu um hve mikið þangað flytst og hvaðan. Auk þess lofaði hann að senda mér síðar skýrslu um verkunina o. fl., en hann þurfti um það að skrifa til stjórnarinnar í Argentínu. Bíð eg enn þess svars. Annað lagði stjórnin fyrir mig að grenslast eftir, hvort skipagöngur mundi mega stofna milli Liverpool og Reykjavíkur. Þá er eg kom aftur frá Noregi til Danmerkur á útmánuðum, ætlaði eg þangað. En þá kom hið mikla kolaverkfall í Englandi og þótti mér sem þá mundi erfitt að leiða hug Englendinga að viðskiftum við svo smátt land og óþekt sem Ísland. Fór eg því heim hingað til þess að vita um undirtektir manna hér undir það mál. Sá eg mér til gleði, þegar eg kom heim, að ýmsir framtakssamir dugnaðarmenn hér voru farnir að hyggja á framkvæmdir í því máli. Og gangi það ekki fram, þá er það eigi þeirra og eigi mín sök. En hér er dæmi þess, að viðskiftaráðunauturinn getur haft nóg að starfa, þótt hann sé heima tíma og tíma. Má það og vera öllum ljóst, því að viðskifti vor við önnur lönd hafa þó annan endann hér heima. Og þótt erindisbréfið geri ráð fyrir að viðskiftaráðun. sé að jafnaði erlendis, þá skilur hver heilvita maður, að hann má koma í viðskiftaerindum hingað, ef þörf krefur. Alt er þetta því hártoganir, sem þeir flytja.

Þá gerðu þeir voðalegan hvell út úr því, að skýrslur frá mér væru ódagsettar og óundirskrifaðar. En þeir hafa ekki gáð að því, vísindamennirnir, að skýrslurnar eru allar með minni eigin hendi og yfir skrifað: Skýrsla Bjarna Jónssonar frá Vogi, þennan og þennan mánuð. Eða halda þeir að eiginhandar nafn sé ekki jafngilt yfir sem undir. Vera má að eg hafi gleymt ártali á síðustu skýrslu minni, sem eg afhenti sjálfur skrifstofustjóranum, en varla tekst þeim að sanna, að þar af standi þessu landi eða sjálfum þeim neinn voði.

Þá hafa þeir talað mikið um, hve lítill árangur sæist af starfi mínu. Menn geta naumast búist við að einn maður gerbreyti á svipstundu viðskiftum Íslands við fimm þjóðlönd. Vita og allir skynsamir menn, að árangur af slíku starfi sést sumur seint, sumur aldrei, þótt hann sé góður. Fyrir rúmu ári hélt eg hér í bæ tvo fyrirlestra um stefnu mína og árangur og lét prenta og gaf þinginu. En núverandi þm. Sfjk. (V. G.) gleymdi eg og hefði þó vel tímt að gefa honum 10 aura virði.

En einn árangurinn af starfi mínu hefðu þeir þó átt að þekkja, nfl. málaleitun norsku stjórnarinnar um tollsamninga. Því að hún er bein afleiðing af minni för. Það hefði þingmaður Seyðf. átt að sjá, ef hann hefði ekki vagl á auga, þegar eitthvað gott þarf að sjá við mig eða mitt starf.

Nei, hér liggja ekki reikningar mínir á bak við, ekki skýrslur mínar heldur. Þeir komu báðir upp um sig, þm. Sfjk. (V. G.) og 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.). Þeir sögðu báðir að eg hefði stofnað blað til þess að komast krókaleið að því, sem bannað hefði verið, nfl. að vasast í pólitík og hefði eg svo látið erlend blöð taka eftir mínu blaði ummæli um samband Íslands og Danmerkur, sem þeim geðjast ekki að. Hvorttveggja er jafnósatt. Mér hefir aldrei verið bannað neitt af því, sem eg hefi sagt eða viljað segja um þetta efni. Mér var bannað aö hafa undirróður gegn Dönum. — En það var ástæðulaust, af því að eg hafði aldrei gert það og aldrei dottið í hug að gera það. En orsökin var sú, að einhverir höfðu lapið róg í utanríkisráðgjafa Dana. Þeim rógi hratt eg, er eg gaf út orðréttan fyrirlestur þann, sem rekistefnan var sprottin af. Síðan hafa Danir steinþagað um það mál, og hreyfa því nú engir nema illa íslenzkar hermikrákur. Hér var aldrei um annað að ræða en það, að eg hlýddi erindisbréfi mínu og gaf réttar skýrslur um Ísland og þess málefni. Munu hetjur þessar aldrei megna að banna mér eða öðrum að segja satt frá, hvað samþykt hefir verið á Alþingi. Annað gerði eg aldrei en að segja rétt frá stefnu Íslendinga, og gerði það svo hæversklega, að mér þykir sjálfum nóg um (Guðlaugur Guðmundsson: Þessu trúi eg). Þingm. hefði verið nær að lesa eitthvað um þetta heldur en (Guðl. Guðmundsson: að taka í nefið); vel botnað.

En þm. Sfjk. og 2. þm. S.-Múl. vilja ekki láta segja satt frá málavöxtum, allra sízt vilja þeir láta þess getið, að Íslendingar telji sig hafa nokkurn rétt.

Jafnósatt var tal þeirra um krókaleiðir. Blaðið stofnaði eg til þess að ná tali manna um ýms merk mál og mér til stuðnings í starfi mínu. Auk þess til varnar mannorði mínu gegn óslitnum rógi þessara og þvílíkra manna, sem engan frið hafa fyrir öfund, af því að þeir halda að eg sé matvinningur þessi ár. —

Þetta styður getgátu mína um það, af hverjum rótum fyrirspurnin sé runnin. Mun eg eiga það eftir ólifað að færa fullar sönnur á þetta.

En hversu innfjálgur er vilji þeirra félaga til þess að spara landsfé, má bezt sjá af því, að þeir eyða heilum degi af dýrmætum tíma þingsins í slíkt ódœmaþvarg, sem sprottið er af illvilja til einstaks manns.