24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

94. mál, notkun lánsheimildar

Fyrirspyrjandi (Björn Kristjánsson):

Þessi fyrirspurn er komin fram vegna þeirra örðugleika, sem á því hafa verið að veita veðdeildarlán í Landsbankanum. Það er alls ekki af vantrausti til stjórnarinnar, heldur vildum við fyrirspyrjendumir láta menn sjá, að við viljum láta þetta mál til okkar taka, því að við vitum hver nauðsyn er á því að útvega landssjóðslán til að geta haldið veðdeildarbréfunum í verði, og til að geta haldið áfram að veita veðdeildarlán.

Þegar eftir stjórnarskiftin í fyrra skrifuðum við ráðherranum 16. marz 1911, og báðum hann að hafa einhver ráð til að leita fyrir sér um lán. Þegar við fengum ekkert svar, skrifuðum við aftur 13. júní s. á. og ítrekuðum ósk okkar um að þetta lán yrði tekið, svo að bankinn gæti haldið áfram að veita veðdeildarlán. Þetta bar engan árangur. Stjórninni tókst ekki að fá lán erlendis með sæmilegum kjörum, enda stóð illa á um það leyti, því að við borð lá að Englendingar og Þjóðverjar færu í hár saman. Nú hefir Landsbankinn til þessa reynt að veita þau veðdeildarlán, sem hann hefir verið beðinn um. Íslandsbanki hefir keypt bréfin, en er nú hættur því, svo að nú eru allar lindir lokaðar, meðan svo stendur að stjórnin getur ekki fengið þetta milj. króna lán. Við gátum búist við að landsstjórnin gæti fengið lán með betri kjörum heldur en Landsbankinn ef hann hefði getað selt bréfin. Og einmitt þess vegna hefir bankastjórnin eigi þorað að reyna verðbréfasöluna sjálf, vegna þess að það hefði getað komið í bága við framkvæmdir landsstjórnarinnar, og ef til vill getað felt bréfin í verði.

Eg þykist nú vita fyrirfram svar hæstv. ráðherra (H. H.). Eg geri ráð fyrir að hann segist vera fús til að taka lánið, ef unt sé að komast að viðunanlega góðum kjörum.

Eg geri ráð fyrir að nú fáist ekki lán með eins góðum kjörum eins og seinast. En þó að það fengist ekki með sem beztum kjörum, má búast við að þjóðin hefði mikið gagn af láninu.