24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

94. mál, notkun lánsheimildar

Ráðherrann (H. H.):

Ástæðan fyrir því að fráfarandi stjórn hefir ekki tekið það hálfrar miljónar lán til bankavaxtabréfakaupa, sem enn er heimild til samkvæmt lögunum frá 1909, er vafalaust sú, að lánið hefir ekki fengizt með þeim kjörum, sem lögin ákveða. Háttv. fyrirspyrjandi verður sem sé vel að minnast þess, að lánskjörin eru fastákveðin í lögunum. Þar stendur, að lánskjörin megi ekki fara fram úr 41/2% og afborgist á 30 árum. Þessi kjör hafa ekki getað fengizt eins og nú hefir verið ástatt um hríð.

Öðrum athugasemdum hins heiðraða fyrirspyrjanda stendur öðrum nær að svara en mér.

Að öðru leyti gat hv. fyrirspyrjandi rétt til svars míns. Eg mun reyna að fá lánið, og taka það, ef eg get fengið það með þeim kjörum sem lögin ákveða, og sem minstum afföllum. Því meiri sem afföllin á láninu verða, því lægra verð fær bankinn fyrir bréf sín hjá landssjóði, og því verri verða lánskjör viðskiftamanna veðdeildarinnar, auk þess sem mjög lágt verð á bréfunum frá landssjóði getur spilt verði eldri veðdeildarbréfa. Eg mun því ekki taka lán í þessu skyni nema afföll verði lítið meiri en 1909, og eru því miður mjög litlar líkur til, að það geti fengist enn sem stendur.

Út af ummælum hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), er lutu að því að eftir stæðu 70 þús. kr. af láni því, sem tekið var 1909, er bankinn ekki hefði fengið, skal eg taka það fram, að mér er ekki vel kunnugt um það atriði, eða þær fjárráðstafanir undanfarandi stjórnar, er þar að lúta, en hafi stjórnin varið þeirri upphæð, sem ekki var varið til þess að kaupa bankavaxtabréf fyrir, til afborgunar á láninu sjálfu, sé eg ekki áð að því verði fundið, því að hún var ekki skyld til að nota lánsheimildina upp í topp. (Jón Ólafsson: Jú!) En þetta skal verða athugað, og standi eitthvað inni hjá landssjóði af láninu, sem ekki hefir verið varið eftir fyrirmælum laganna frá 1909, þá mun reynt að bæta úr því þegar fjárhagurinn leyfir.