08.08.1912
Efri deild: 19. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Ágúst Flygenring:

Jeg vildi með örfáum orðum gera stutta grein fyrir frv. þessu, vegna þess að jeg býst við, að flestum þingm. í hinni háttv. deild sje það ókunnugt (Stefán Stefánsson. Já, nokkuð).

Þegar Hafnarfjörður varð kaupstaðurr var landið eign þriggja aðila, síðan hefur Hafnarfjörður keypt land það, er J P. T. Bryde átti. Er það verðmætast þessara landeigna, enda er mest þjettbýlið þar. Land þetta liggur að sjó frá Fiskaklett suður að Læk. Á því svæði er helzta bryggjan og aðalviðskiftalífið verður þar framvegis vegna hafskipabryggjunnar, sem þar er verið að byggja.

Næst verðmesta landsspildan er sú, sem kirkjan á innan endimarka kaupstaðarins. Það er landið, sem hjer er um að ræða. Að vísu óræktað alt; því þeir tveir grasblettir, sem eiga að heita grasi vaxnir á þessu landi, nefnilega Hamarskot og Undirhamar, eru báðir undanskildir í kaupinu. Aðallega er landið hraun og holt, sem notað er til beitar af ýmsum næstliggjandi sveitum. Jeg skal játa, að kaupstaðurinn þarf ekki nauðsynlega að kaupa land þetta, og við mikið af því hefur hann ekkert að gera, en hins vegar er ýmislegt í sambandi við afnotin af því, sem gerir það að verkum, að kaupstaðnum er hentugt að hafa óskertan umráðarjett yfir landinu. Auk allrar beitar fyrir skepnur bæjarins má t. d. nefna afnot vatnsafls til raflýsingar, vatnsveitu o. fl.

Það af landi þessu, sem er bygt, er bygt með órjúfanlegum samningum, erfðafestu, svo að það er eins og það væri selt. Það er þess vegna auðvelt, að meta svona. land. Jeg man ekki betur en eftir skýrslu þeirri, er prófasturinn í Görðum gaf bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þá nemi leiga af því 1.600-1.700 kr.

Fiskiverkunarsvæði eru mjög lítil í landi þessu fyrir utan þau, sem þegar eru seld á erfðafestu; að eins smáskikar eftir, sem kunna að vera ólofaðir.

Ekki er hægt að segja um það, hvað land þetta muni mikið byggjast, en eftir því, sem bygzt hefur síðustu árin, þá lítur ekki út fyrir, að það verði mjög mikið fyrst um sinn, enda hefur bygðin færzt í mótsetta átt, nefnilega á landi kaupstaðarins. Það mun láta nærri, að sannvirði landsins sje í kring um 40.000 kr., og eru þá eftir frumv. greiddar 12.000 kr. fyrir það aukna verðmæti, sem álíta má að í landinu liggi við það, að bygðin vaxi. Er þetta verð ákveðið af seljandanum sjálfum, beneficiarius í Görðum með samþykki og ráði biskups.

Það hefur verið fundið að því, að það hafi ekki verið talað um málið við stjórnarráðið, en þetta er ekki að öllu leyti rjett. Strax sem þetta var rætt, fór prófasturinn í Görðum til ráðherra og spurði hann að, hvort stjórnarráðið vildi ekki selja land þetta, samkv. lögum um sölu kirkjujarða, en ráðherra vísaði málinu frá sjer og áleit stjórninni ekki beint koma það við; sagði víst á þá leið, að prófastur með ráði biskups gæti eins vel undirbúið það til þings, og hefur þess vegna sú leið verið farin.

Fram á lestrarsalnum hjer liggur uppdráttur yfir land þetta, sem sýnir stærð þess og lögun, svo og gefur uppdrátturinn fullkomna upplýsingu um það, hvernig því er háttað; hvað af því er hraun og hvað melar o. s. frv.

Jeg verð að álíta, að það sje jafn-rjett, að selja land þetta eins og aðrar þjóð- eða kirknaeignir, sem fyrst verða að einhverjum verulegum notum, þegar þær hafa skift um eigendur. Hjer er að ræða um landsspildu úr Garðalandi, sem ábúandi ekki getur að neinu hagnýtt sjer, nema að því, er snertir afgjöldin af bygðurn lóðum.

Jeg gat um það áðan, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar vildi af ýmsum ástæðum fá umráð yfir landinu. Eins og nú háttar, byggist landið alla vega og með alskonar lóðarstærðum, og sjá allir, að slíkt er mjög óhentugt fyrir kaupstaðinn, viðvíkjandi götum og öðru skipulagi.

Þess vegna er mjög æskilegt fyrir bæjarstjórnina að fá vald yfir landinu, hvað þetta áhrærir. Í landi þessu er ennfremur vatn til neyzlu og lækur sá, er notaður er til að raflýsa bæinn m. m. Þetta o. fl. hefur þá þýðingu, að bænum er nauðsynlegt, að kaupa landið, þótt enginn beinn hagur sje að því, enda er það líka ærin upphæð, að gefa 12000 kr. fyrir arðlaust land, sem ekki gefur neitt af sjer fyr en máske einhvern tíma í framtíðinni, eða ef til vill aldrei.

Jeg lít svo á, að úr því að prófasturinn í Görðum og biskup hafa fjallað um málið fyrir kirkjunnar hönd, þá ætti því að vera vel borgið frá kirkjunnar eða landssjóðs sjónarmiði, og þar af leiðandi engin ástæða til að tefja málið. Öll töf á málinu yrði því einungis til að baka bæjarstjórn Hafnarfjarðar og kirkjunni óþægindi, og þótt farið yrði að virða landið, þá tel jeg ekki hægt eða forsvaranlegt, að virða það hærra, en það er boðið fyrir af umráðamanni þess nú.