29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

7. mál, yfirsetukvennalög

Guðl. Guðmundsson:

Það er talsvert þýðingarmikið mál sem hér er á ferðinni, og býst eg við að sýslunefndum og bæjarstjórnum þyki lagt á sig æði hátt gjald með frv. Hækkunin frá því sem nú er, ekkert smáræði. Í sumum umdæmum, eg nefni t. d, Eyjafjörð, nemur hún helmingi, og á öðrum stöðum, t. d. á Akureyri, verður kostnaðurinn þrefaldur við það sem hann er nú. Eg sé ekki á þessum skjölum sem hér liggja fyrir og málinu fylgja, að það hafi verið borið undir sýslunefndir og bæjarstjórnir, og skilst mér þó, að sveitarstjórnarlögin geri ráð fyrir að þessi stjórnarvöld hafi hönd í baga með slíkum málum sem þetta er.

Það er ekki svo að skilja, að eg vilji ekki viðurkenna, að laun yfirsetukvenna séu æði lág, að minsta kosti í sumum víðlendum umdæmum, og að nauðsynlegt væri að hækka þau, en mér virðist samt sem áður þetta frumv. nokkuð stórstígt.

Eg leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til 5 manna nefndar að umr. lokinni.