16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

7. mál, yfirsetukvennalög

Framsögum. (Eggert Pálsson):

Þetta mál er ekki nýtt hér á þingi. Á síðasta þingi lágu fyrir áskoranir frá yfirsetukonum víðsvegar um land, um að bætt yrðu launakjör þeirra. Afleiðingin af þessum áskorunum varð sú að samþykt var þingsályktunartillaga, þar sem skorað var á stjórnina að athuga málið og leggja frumvarp um það fyrir þetta þing ef henni virtist ástæða til þess. Stjórnin hefir gert þetta og notið þar aðstoðar landlæknis. Frv. er hingað komið frá háttv. Ed. Það felur í sér tvennar umbætur á kjörum yfirsetukvenna. Í fyrsta lagi fer það fram á hækkun á borguninni fyrir hverja yfirsetu úr 3 kr. upp í 5 kr. og hefir nefndin ekkert við það að athuga. En að því er snertir sjálf launin, þá þykir nefndinni ekki rétt að láta laun hinna lægst launuðu yfirsetukvenna halda sér eins og farið er fram á í frv. stjórnarinnar og óbreytt er í frv. Ed., en hækka aftur að mun laun þeirra kvenna sem eru í fjölmennari umdæmum. Það er ekki sanngjarnt að sinna alls ekki kröfum þeirra kvenna sem eru í fámennari héruðum, og láta þær sitja algert á hakanum, því auðvitað hafa þær líka óskað og vonað að fá einhverjar bætur á sínum kjörum.

Nefndinni sýnist því réttlátt, að þoka lágmarki launanna, 60 krónum, upp í 70 kr., og að eins 5 kr. hækkun komi í staðinn fyrir hverja fimm tugi sem eru yfir 300 manns í stað 10 kr. hækkunar fyrir hverja 5 tugi sem eru yfir 200 manns, sem frv. gerir ráð fyrir. Nefndin áleit að þetta mundi koma sér betur, ekki aðeins hjá gjaldendunum, af því að þeim sparast 2.655 kr. við það, heldur einnig hjá yfirsetukonunum, og að þetta mundi frekar útiloka alla öfund og óánægju hjá þeim innbyrðis, einkum hinum lægst launuðu. Hvað því viðvíkur að hækka laun yfirsetukvenna þegar ástæður þykja til, hvort sem nú sérstakir örðugleikar á að fá yfirsetukonu í umdæmi eða verðleikar eða aðrar kringumstæður mæla með því, þá vildi nefndin láta sýslunefndir eða bæjarstjórnir hafa sem óbundnastar hendur í þessu eins og þær nú hafa í flestum öðrum málum. Þarf eg svo ekki að tala um þetta frekar, breitingartill. eru svo ljósar að þær ekki þurfa neinna skýringa, t. d. eins og það að miða laun yfirsetukvenna við fardagaár.

Fyrir nefndinni lágu br.till. frá hv. þm. Dal. (B. J.), en nefndin gat ekki fallist á þær, en mætti segja að hún hefði mætt þeim á miðri leið, að því er lágmark launanna snertir, með sínum brt.

Eg veit að menn eru orðnir þreyttir á umræðunum hér í dag og skal eg því ekki orðlengja um þetta.