16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

7. mál, yfirsetukvennalög

Tryggvi Bjarnason:

Hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) hefir bent á eitt af þeim atriðum, sem eg ætlaði að taka fram.

Það er öllum kunnugt, að yfirsetukonur hafa kvartað yfir því að laun sín væru lá, og það með rökum, enda hefi eg engin andmæli heyrt hafin gegn því.

Háttv. Ed. hefir sára litlar breytingar gert á frv. frá því sem það kom frá hendi stjórnarinnar, en hér í deildinni hafa komið fram töluverðar breytingartillögur, sem eg get sumar hverjar felt mig við, en aftur sumar ekki sem bezt.

Það sem eg legg aðaláherzluna á, er að bætt séu launakjör yfirsetukvenna í fámennum umdæmum. Lágmarkið finst mér vera of lágt, og get eg þess vegna fallist á brtill. hv. þm. Dal. (B. J.) að lágmarkið sé sett 80 kr. í staðinn fyrir 60. Það hefir að vísu útgjöld fyrir sveitarsjóðina í för með sér, en hinsvegar er þörfin svo brýn, að ekki er í það horfandi.

Það er auðvitað, að þau umdæmi, sem eru fjölmennari, gefa meiri aukatekjur, og það er áreiðanlegt, að yfirsetukonur vilja heldur taka þau með sömu föstum launum. En eftir þessum breytingartillögum fara föstu launin hækkandi eftir fólksfjölda. Mér telst svo til, að í 120 umdæmum sé fólkstalan yfir 300.

Ef þingið vill bæta kjör yfirsetukvenna, verður að gera það betur en gert er með þessum brtill. Þó að þóknunin fyrir að sitja yfir sé hækkuð upp í 5 kr. í staðinn fyrir 3 kr., þá munar það sáralitlu þar sem fæðingar eru fáar.

Meðan skortur er á yfirsetukonum, er hættast við að þau umdæmi, sem afskekkt eru og fámenn verði yfirsetukonulaus. Því finst mér ríða mest á að bæta kjör yfirsetukvenna í þeim umdæmum, jafnvel fremur en hinna. Þetta er að eins til að sýna lit og ekki meira.

Hvað viðvíkur öðrum breyt.till. hv. þm. Dal. (B. J.) þá þykir mér fremur lítið til þeirra koma.