16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

7. mál, yfirsetukvennalög

Ráðherrann (H. H.):

Það er sannarleg heppni fyrir hv. þm. Dal. (B. J.) að geta notað jafnvel meinlaust yfirsetukvennafrumvarp til að sýna þrek sitt og sjálfstæði gagnvart öllu því, sem danskt er. En eg er hræddur um, að jafnvel þótt sá tilgangur hans kunni að þykja fagur og merkilegur, þá sé hann ekki heppilegur eins og hann kemur fram í brtill. hans, því eftir henni mundi orðalag frumvarpsgreinarinnar verða þannig, að beint lægi við að skilja svo að yfirsetukvennaskólinn í Reykjavík sé erlendur skóli. (Bjarni Jónsson: Þetta er ekki rétt.) Jafnvel þó ekki væri þessi villa, verð eg að halda því fram, að ekki sé rétt að miða í lögum við yfirsetukvennaskólann í Reykjavik, meðan enginn skóli er til í Reykjavík með því nafni.

Annars hygg eg að það sé réttara fyrir hinn hv. þm. Dal. (B. J.), að reyna að sýna skilnaðarþrek sitt í einhverju öðru heldur en með því að látast ekki þekkja né meta neins fæðingarstofnunina í Kaupmannahöfn, sem allir læknar vorir hafa lært á ókeypis, og vér að öðru leyti mikils góðs af notið, með yfirsetukvennafræðslu.