16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

7. mál, yfirsetukvennalög

Framsögum. (Eggert Pálsson):

Út af því sem hv. þm. Ak. (G. G.) sagði, að hann teldi óhentugt að miða launin við fardagaár, skal eg geta þess, að eg hefi átt tal við annan sýslunefndaroddvita, sem hafði þá skoðun að það væri miklu heppilegra. En þetta er ekkert aðalatriði, og skal eg láta þá bítast um það.

Viðvíkjandi því sem hv. þm. Dal. (B. J.) hélt fram, um brtill. nenni eg ekki að stæla við hann, en læt deildina skera úr. En þar sem hann sagði að sér blöskraði ekki þó útgjöld sýslusjóða hækkuðu um 2.030 kr., þá skal eg geta þess, að hækkunin yrði öll 8.065 kr., ef brtill. hans yrði samþykt og er það hlutfallslega nokkuð mikil hækkun úr tæpum 14.000 kr. Þessi útgjaldaauki mundi í mörgum sýslufélögum nema um 300 til 500 kr., og mundu sýslunefndir geta gert margt fyrir þá upphæð.

Það væri ekki svo lítið lán, sem 3—5 hundruð krónur væru vextir af. Og mætti vissulega nota það til einhverra þarflegra fyrirtækja.

Hvað snertir síðustu brtill. hans, að þóknun sú, sem sveitarsjóður greiðir yfirsetukonum fyrir fátæka sængurkonu, skuli ekki telja til fátækrastyrks, þá sýnizt okkur þar sitt hvorum og hefi eg útrætt það mál við hann, en eg vil ekki láta ómótmælt orðum sem hann lét falla því viðvíkjandi. Það var eins og hann vildi taka undir þá úreltu skoðun, að barn, sem er fætt á sveit, sé markað sveitarlimsmarki. Sú skoðun ‚ er nú löngu horfin, og eg vildi ekki að hv. þm. Dal. (B. J.) væri að vekja hana upp.

Háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) þarf eg ekki að svara sérstaklega. Það gildir sama um hann og hv. þm. Dal. (B. J.). Mér fanst hann ekki telja sýslusjóðum vorkunn að borga. Hann er því sjálfsagt kunnugur fyrir norðan, hvað mikið gjaldþol sýslusjóðirnir hafa, en eg hygg að það sé nokkuð líkt fyrir norðan og hér, að þeir hafi í nokkuð mörg horn að líta og geti munað um nokkur hundruð króna útgjaldahækkun hvern fyrir sig.

Eg skal svo að endingu leyfa mér að benda hv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) á, að breytingartillögur okkar gera ráð fyrir að hækka fastakaup yfirsetukvenna úr 60 kr. upp í 70 kr., og lækka aukaþóknun til þeirra, sem eru í fjölmennari umdæmum úr 10 kr. niður í 5 kr. fyrir hverja fimm tugi manna, sem fram yfir eru 300. Þetta finst mér vera í fullu samræmi við það sem hv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) var að tala um, að bæta kjör yfirsetukvenna í fámennari umdæmunum, og vona eg því að hann láti sér það vel líka.