08.08.1912
Efri deild: 19. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Ráðherra (H. H.):

Það hefur verið skýrt frá því í Nd., og jeg heyri það einnig sagt hjer, að ástæðan fyrir því, að þetta mál kom ekki fyrir þingið sem stjórnarfrumv., hafi verið sú, að hlutaðeigendur hafi leitað til fyrv. ráðherra og hann hafi neitað að taka við því. — Nú hefur hv. fyrv. ráðherra falið mjer að geta þess hjer, að þetta væri ekki alskostar rjett hermt. Hann segist hafa verið spurður, hvort stjórnarráðið gæti ekki framkvæmt söluna eftir lögunum um sölu kirkjujarða, og hann hafi gefið það svar, að málið yrði að ganga til alþingis og afgreiðast þaðan með sjerstökum lögum. En hinsvegar væri rjett, að leita fyrst til biskups áður en frekara væri gert í málinu. Þaðan hefði svo átt að senda það til stjórnarráðsins til frekari aðgerða, en það hefur ekki verið gert.

Óneitanlega væri það viðfeldnara, að stjórnin undirbyggi slík mál sem þetta, og hefði verið viðkunnanlegra, að virðingargerð hefði legið fyrir þinginu, áður en það tekur ákvörðun um það. En úr því má bæta með því, að hnýta því við lögin, að salan verði ekki framkvæmd fyr, en farið hefur fram virðing á landsspildunni.