20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Frams.m. (Jóhannes Jóhannesson):

Hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) las upp nokkur orð úr forsendum hæztaréttardóms frá 1887. Það er enginn vafi á því, að þá hvíldi sú skylda á landlækni að hafa þessa kenslu á hendi. En með lögunum frá 13. apríl 1894 var kensla yfirsetukvenna færð frá landlækni yfir á læknaskólann og eftir þann tíma hafði landlæknir kensluna á hendi sem forstöðumaður læknaskólans, en ekki sem landlæknir, þar til allri kensluskyldu var létt af honum með háskólalögunum. Nú hvílir því ekki sam kvæmt lögum nein skylda á honum að hafa þessa kenslu á hendi, og hæztaréttardómur sá, sem hv. þm. gat um, gefur því enga leiðbeiningu lengur. Þá sagði hann að 1.000 kr. væri of mikil borgun fyrir 4 stundir á viku. Mér þykir ekki nærgætnislegt af honum að segja þetta, þar sem hann fær sjálfur 4.000 kr. fyrir að kenna 6—8 stundir á viku.