24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Eg bjóst við því, að ekki ætti fyrir þessu þingi að liggja að bæta hag nokkurrar stéttar á landinu, nema einnar, það er þingmannastéttarinnar, sbr. frv. um þingfararkaup. En nú sé eg að á að fara að bæta kjör annarrar stéttar, landlæknastéttarinnar, sem raunar er heldur fámenn stétt, einn maður að eins.

Háttv. framsögum. (Jóh. Jóh.) sagðist ekki vilja rétta höndina til þess að stofna ný embætti. Þetta er ekki frumlegt og mun kynjað úr Ed., því að þar kom sama viðbáran fram; hjá hvorum tveggju jafn tilefnislaus og órökstudd. Það er víst, samkvæmt bréfi Guðmundar Magnússonar til nefndarinnar hér í deild, að á næstu árum þarf að stofna nýtt embætti í læknadeildinni, og þá liggur næst, að læknadeildin taki að sér að kenna yfirsetukonum, eins og forstöðumaður læknadeildarinnar tekur fram, enda í samræmi við það, sem annars staðar tíðkast, eins og áður hefir verið bent á. Við það spöruðust algerlega þessar 1.000 kr., því að þær væru þá fólgnar í því kaupi, sem hinn nýi kennari fengi hvort sem væri. — Það er því ekki annað en aumasti fyrirsláttur, að segja að það sé gert til að spara fé, að láta landlækni fá þetta fé um ókominn tíma. Samkv. br.till. okkar 1. þm. Rang. (E. J.) um daginn, átti landlæknir að hafa þennan starfa í bráðina, þangað til að auknir væri kenslukraftar læknadeildarinnar hvort sem væri. Það er á þingsins valdi, hve nær hún sinnir þeirri kröfu. Við vorum alls ekki að mæla fram með henni í br.till. Þetta er svo augljóst, að furða er, að menn skuli þykjast misskilja það.

Hitt skal eg játa, að samkvæmt því, hversu upp á þessu máli er fitjað, og eftir meðferð þess í þinginu, þá mun það ná betur tilgangi sínum með því að fá landlækni og engum öðrum þessa kenslu allan hans aldur, því að aðalástæðan til þessarar embættisstofnunar er auðsjáanlega sú að búa til handa núverandi landlækni persónulegan bitling!

Það er einkennilegt að landlæknir skuli hóta að hætta kenslu nema hann fái 1.000 kr. að launum, og má telja það ósvífið þegar þess ei gætt, að hann hefir verið leystur frá forstöðmensku læknaskólans og kenslu þar og í annan stað, að landlæknir er skyldur að lögum að hafa þessa kenslu á hendi, samkvæmt upplýsingum háttv. 1. þm. Rvk (L. H. B.), er skírskotaði um þetta efni í hæstaréttardóm. Þetta er ekkert annað en að kúga út peninga úr landssjóði, sama sem að segja: Peningana eða lífið. Slíkum ofstopa ætti að svara með því að fella frv.