24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Tryggvi Bjarnason:

Það hefir mætt andmælum að landlæknir hafi þessa kenslu á hendi, einkum frá hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.). Hann lítur svo á að það mundi verða sparnaður að háskólinn hefði hana. Eg er ekki viss um að sú muni verða reyndin á.

Undanfarin 5 ár hefir landlæknir haft upp úr kenslunni að meðaltali 680 kr. á ári. Frv. fer fram á að hann fái 1.000 kr. fast, hér er því að eins um 3—400 kr. hækkun að ræða, og er það ekki ægilegt. Aukakennarar við læknadeild háskólans kenna 1—3 stundir á viku. Augnlæknir kennir t. d. 3 st. vikulega og fær að launum fyrir það 1.500 kr. á ári. Eyrna- nef- og hálslæknir kennir 2 st. annað tímabilið og 1 hitt eða 11/2 st. vikulega að jafnaði og fær fyrir það 1.000 kr. Tannlæknirinn kennir 1 stund á viku og hefir að launum fyrir það 1.000 kr. á ári. Kensla yfirsetukvenna fer fram í 4 stundum á viku, og stendur yfir í 6 mánuði, og eru því laun þau sem landlækni eru ætluð fyrir hana í frv., borin saman við laun aukakennara við háskólann, mjög lág. Það er því ekki hægt að búast við að kenslan yrði landinu ódýrari en hún er nú, ef hún væri kend af sérstökum aukakennara við háskólann, en eg er hræddur að það mundi verða endirinn á ef hún verður lögð til háskólans.

Guðm. Magnússon prófessor hefir gefið í skyn að þörf væri á því að bæta kennara við læknadeildina. Það gæti dregist um nokkur ár ef þessi kensla verður ekki lögð til háskólans, en fyr eða síðar mun reka að því að þess þurfi hvort sem er. Það er því hæpið að treysta á það að sá kennari sem bætt verður við geti haft þessa kenslu á hendi, auk þeirrar annarar kenslu, sem honum verður falin, enda gæti það vart farið saman að kenna læknaefnum og yfirsetukonum í sömu stundum. Eg þykist þess því fullviss, að verði kenslan í yfirsetukvennafræði lögð til háskólans, þá muni þurfa að bæta við læknadeildina einum aukakennara auk þess kennara sem nú er sögð þörf á að bæta við, ef kenslan í yfirsetukvennafræði á ekki að verða mjög takmörkuð, því eins og hún er nú, með 4 st. á viku, er hún nóg starf fyrir 1 aukakennara eftir því sem starf núverandi aukakennara er.

Þá sagði háttv. þm. N.-Þing. (Sv. B.), að hentugra væri að háskólinn hefði þessa kenslu á hendi. Eg skil ekki að ver fari á því að hún sé í höndum landlæknis, þess manns sem hefir yfirumsjón með öllum heilbrigðismálum. Ef hann er áhugasamur maður þá mun hann ávalt gera meir en blábera skyldu sína sem kennari, t. d. fræða nemendurna um ýmislegt sem að þrifnaði og öðrum lifnaðarháttum lýtur. En háskólakennari mundi síður gefa sér tíma til að fara út fyrir það sem hann er skyldugur til. Svo er annað sem landlæknir bendir á í tillögum sínum, hann getur þess að hann telur sér skylt að veita þeim sængurkonum sem nemendurnir sitja yfir, sér til æfinga, ókeypis læknishjálp. Og úr því það er einu sinni innleitt að landlæknir telur þetta skyldu sína, þá myndi sá næsti líta svo á að sér væri ekki sæmilegt að breyta út frá því.

Af þessu sem eg hefi sagt lít eg svo á að það myndi ekki leiða til neins sparnaðar að kenslan yrði lögð til háskólans, né heldur væri það hentugt, og mun eg því greiða atkvæði með frv. eins og það liggur fyrir. Hitt er annað að ástæða væri til að breyta lögunum ef sérfræðingur í þessari grein kæmi að háskólanum.