14.08.1912
Efri deild: 24. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Steingrímur Jónsson (framsögum.):

Jeg get verið mjög stuttorður um frv. þetta.

Nefndin hefur orðið sammála um, að ráða háttv. deild til þess, að samþykkja aðalinnihald frv., nefnilega að selja Hafnarfirði þetta umrædda land eða að veita landsstjórninni heimild til að selja landið.

Eins hefur nefndin fallizt á 2. gr. að efninu til; að eins vill hún ekki, að landið sje selt fyr, en búið er að meta það af óvilhöllum og dómkvöddum mönnum, en þó aldrei lægra en það verður metið. Nefndin lítur ennfremur svo á, að verð það, er beneficiarius Garðakirkju hefur ákveðið, sje mjög sanngjarnt, enda gekk nefndin að því sem vísu, að það mundi líka ekki vera til óhags fyrir bæinn. Hjer er því að eins um regluna að ræða, þá reglu, er slegið var fastri hjer í háttv. deild við sölu Húsavíkur, og þeirri reglu vill nefndin láta fylgja.

Ennfremur vill nefndin, að landsstjórnin ráði öllum söluskilmálum, svo sem borgunarskilmálum og vaxtaupphæð, því með því móti skapast fastar reglur, en ef þingið ákveður það í hvert sinn, er meiri hætta á ruglingi í þeim efnum.

Annars vil jeg taka það fram, að jeg tel söluskilmála þá, er hjer ræðir um, ekki óeðlilega, því Hafnarfjörður er svo velstæður, að engin hætta er á, að fjeð tapist, en engin ástæða til að hafa vextina hærri, og væntir nefndin því, að hæstv. ráðherra hafi borgunarskilmálana sem næst því, er hjer hefur komið fram, en við viljum þá slá því föstu, að landsstjórnin eigi að ráða þessu.

Jeg hefði talið æskilegt, að hæstv. ráðherra hefði verið viðstaddur hjer í deildinni, svo við hefðum getað heyrt álit hans, en hann mun vera bundinn í Nd.