16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Valtýr Guðmundsson:

Eg ætla ekki að tala mikið um þetta mál. En mér þykir nokkuð harður þessi úrskurður forseta og deildarinnar. Með honum er gengið á móti almennum reglum og Ed. látin hafa frumkvæði í fjármálum. Auk þess er hér einstakra manna frv. tekið fram yfir stjórnarfrv. og þykir mér það furðu gegna, að hv. þm. Borg. (Kr. J.) greiðir atkv. á móti því að vísa þessu máli frá. En mest furðar mig að heyra ekki nein mótmæli frá hæstv. ráðherra (H. H) gegn þessu atferli, þar sem Ed. er hér gefið frumkvæði í skattamálum þvert ofan í fyrirmæli stjórnarskrárinnar. (Ráðherrann: Í hvaða gr. stendur það?). Það er í 25. gr., þar sem boðið er að leggja fjármálafrumv. fyrst fyrir Nd. (Ráðherrann: Það nær ekki nema til fjárlagafrv.). Þó það sé ekki beint tekið fram um skattamál, þá er það viðurkend regla í öllum löndum að öll skattafrv. séu fyrst lögð fyrir neðri málstofurnar, og þeirri reglu hefir hingað til verið fylgt hér í þinginu, en nú afsalar Nd. sér þessum rétti, sem hún hefir hingað til varast eins og heitan eldinn að brjóta á móti.

Eg verð að leyfa mér að mótmæla þessu sem þingmaður Nd., því eg álít að hér hafi fram farið fyllileg lögleysa. Þegar mál er felt er ekki leyfilegt að bera fram frv. sama efnis á sama þingi, og í fullu samræmi við það mega ekki tvö frumv. sama efnis liggja í einu fyrir sama þingi. Og því kynlegra er þetta, þar sem hér er að ræða um stjórnarfrv. sem látið er sitja á hakanum fyrir privatfrv., og hafa þó stjórnarfrv. vanalega meiri rétt á sér.

Eg skal svo ekki ræða frv. frekar. Það hefir verið útbýtt nefndaráliti, og sést á því að nefndarmennirnir leggja til að frv. sé felt.