16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Lárus H. Bjarnason :

Eg vil ekki vita úrskurð hæsv. forseta, en það verð eg að segja, að skjátlast getur honum, þótt skýr sé, enda gaman að fá að vita, hve mörg samhljóða frv. eða því sem næst megi vera á ferðinni samtímis, úr því að 2 frv. mega fara saman.

Þetta frumvarp er orði til orðs eins og stj.frv., sem var hér í nefnd, nema 2 línur hafa verið gerðar úr 1 línu í stj.frv. og 2 eða 3 tölum örlítið breytt. Það er borið fram í efri deild, að því að fullyrt er fyrir neðanjarðarforgöngu hæstv. ráðherra, og er það fullkomin nýlunda, að Ed. skuli leyfa sér að hafa frumkvæði að skattalögum, svo mikið nýmæli, að hér er í rauninni, eins og háttv. þm. Seyðf. hefir tekið fram, fullkomin breyting á ferðinni. Að vísu stendur það ekki bókstaflega í stjórnarskránni að Nd. skuli hafa frumkvæði um önnur mál en fé og fjáraukalög, en hér er um mjög svo lík mál að ræða, og jafnvel meiri ástæða til að Nd. hafi aðaláhrif á frumvörp, sem skapa eiga nýja skatta, heldur en á frv., sem ráðstafa eiga að eins áður gefnum sköttum, enda svo fyrirkomið annars staðar, og ætti þá ekki sízt að vera svo hér, þar sem 6 af 14 sætum í Ed. eru skipuð konungkjörnum þingmönnum. Þessa hefir og undantekningarlaust verið gætt í framkvæmdinni, Ed. hefir aldrei leyft sér slíkt fyr, og eg get mint á það, að hv. 1. þm. Skagf. lýsti sig fyrir nokkrum árum, að gefnu tilefni, á sama máli. Og það er ekki hvað sízt ástæða til að mótmæla aðferð Ed. nú, þar sem hún hefir nýskeð látið sér sæma að fella merkilegt skattafrumv. héðan úr deildinni, svo að segja umræðulaust — reyndar hafði einn af deildarmönnum, og ekki sá skýrasti, verið látinn fara með nokkur orð yfir gröfinni, en vitanlega bara til málamynda. Hæstvirtur ráðherra var ekki við í eigin persónu þegar þetta gerðist, en eg hygg þó að andi hans hafi svifið yfir vötnunum. Eg óska honum og háttv. Ed. til lukku með þann sigur, en tvísýnt er hvort það borgar sig að vinna marga slíka með þeirri aðferð, sem hér hefir verið beitt.

Þá vil eg víkja nokkuð að frumv. sjálfu, úr því að hæstv. forseti og hv. deild hafa sett það hér til umræðu. Það er, eins og tekið hefir verið fram, í rauninni sama frumv. og frumv. hv. milliþinganefndarinnar, sem nú er komið úr nefnd, enda sama um það milliþinganefndarfrumv. að segja og hin. Tvö þeirra lýsa dæmafárri vanþekkingu á algengum lögum og jafndæmafárri hroðvirkni; eg á við kolaeinokunarfrumv. og þetta síldarlýsisfrumvarp.

Um kolafrumv. er það að segja, að það mun vera einsdæmi í stjórnmálasögu Danmerkur og jafnvel þótt lengra sé leitað, að nokkur milliþinganefnd og stjóra hafi borið fram frumv., er var augljóst brot á upphafskröfum þjóðarréttarins, en svo var um frumv. þetta, því að samkvæmt því átti að fara öðruvísi með útlendinga en innlendinga. Eg vona að nýtir námsmenn, sem nokkuð eru komnir á veg í lagadeildinni, hefðu ekki strandað á þessu skeri.

Þetta lýsisfrumv. lýsir líka vanþekkingu nefndarinnar á gildandi lögum, meira að segja tvöfaldri vanþekkingu á algengum innlendum lögum, og hefði átt að vera óþarfi fyrir nefndina að flaska á þeim, þar sem í henni sátu 2 gamlir lögreglustjórar. Með leyfi hæstv. forseta leyfi eg mér að lesa upp athugasemdir nefndarinnar aftan við frumv. Þær hljóða svo:

„Til hægðarauka, og til þess að hafa meginmál frumv. sem styzt, er frumv. þessu ætlað að verða viðaukalög við lögin um útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl., frá 4. nóv. 1881.

Þetta fyrirkomulag er einnig í fullu samræmi við lögin um útflutningsgjald á hvalafurðum, frá 11. nóv. 1899. Gjaldhæðin af áburðar- og fóður-efnum er hér ákveðin eins og af samskonar áburðar- og fóður-efnum, búnum til úr hvalbeinum og hvalkjöti. Hins vegar þykir ekki ástœða til að taka hœrra útflutningsgjald af síldarlýsi en öðru lýsi, með því að þessi tegund er ekki verðmætari en t. d. alment þorskalýsi“.

Um upphaf þessarar athugasemdar er eg á sama máli og nefndin. Það var óneitanlega til hægðarauka fyrir nefndina að hafa lögin ekki lengri en 8 línur. En mér virðist að milliþinganefnd, sem starfar fyrir landið og tekur sér 8 kr. dagkaup á mann, 2 kr. hærra en þingmenn og allir milliþinganefndarmenn hingað til hafa fengið, ætti ekki að lita eingöngu á það hvað henni er hægast, heldur líka dálítið á það, hvað öðrum kæmi að gagni. Útflutningsgjaldalögin eru orðin svo mörg, muni eg rétt, 7 að tölu, að fullkomin nauðsyn hefði verið á að draga þau saman í eitt, ekki síður en aðflutningsgjaldslögin um árið. Það hafði mþn. átt að gera og bæta svo við nýmælum einum. Mjög óheppilegt að nefndin gerði þetta ekki, en út yfir tekur þó, að nefndin skuli hvorki hafa vitað að síldarlýsi er gjaldskylt eftir rúml. 30 ára gömlum lögum né heldur vitað gjaldið á venjulegu lýsi. Hún heldur síldarlýsi gjaldfrjálst og heldur toll af venjulegu lýsi 50 aura af tunnu, en hvorttveggja er tvímælalaust rangt. Síldarlýsi hefir verið gjaldskylt í rúm 30 ár og venjulegur lýsistollur er 30 aurar.

Viðvíkjandi gjaldhæðinni vona eg að allir verði sammála milliþinganefndinni um það, að ekki sé ástæða til að taka hærri toll af síldarlýsi en öðru lýsi, sem sé ekki hærra en 30 aura. Vona með öðrum orðum að allir verði sammála um að fella þetta. En um hitt, að tolla fóðurmjölið, kökurnar og áburðarefnin, verð eg að taka það fram, að ekki sé rétt að tolla þessar vörur að svo stöddu. Fyrst og fremst mundi það afla landssjóði lítilla tekna. Eg hefi reyndar heyrt hv. þm. Ak. gera ekki svo lítið úr þeim tekjum, sem hér sé um að tefla, en hann er nú skáld, þótt hann yrki ekki og hefir allmargar sönnur fært á það mál sitt. Verksmiðjan var ekki nema ein þegar milliþinganefndin samdi frumv. sitt, og nú er þegar langt liðið á veiðitímann. Gjald þetta kynni jafnvel að geta dregið úr tekjum landssjóðs af þessum afurðum síðar meir, ef það yrði nú samþykt. Milliþinganefndin segir sem sé að í ráði sé að stofna líkar verksmiðjur á Suður- og Vesturlandi. Lögin gætu því orðið til þess að hefta þá, sem ekki hafa þegar byrjað á verksmiðjugerð. Slíka tolla á ekki að leggja á fyr en menn eru búnir að festa peninga sína í fyrirtækjunum og tekjuvonin er orðin örugg. — Svo er önnur ástæða til þess að eg vil ekki samþykkja þessi gjöld nú, og hún er sú, að eins og menn vita hefir stjórnin á þingskjali 81 farið fram á það við þessa hv. deild, að styðja sig til samninga við Noregsstjórn, og vona menn að það gæti orðið til lækkunar á tolli á ísl. saltkjöti og ísl. hestum í Noregi. Deildin hefir tekið vel í þetta, en mér skilst að það mundi ekki gefa stjórninni betri byr til þessara samningsumleitana ef nú væri farið að samþykkja skattanýmæli, sem aðallega ganga út yfir Norðmenn.

Háttv. þingm. Ak. fann að því, að skattanefndin hefði setið alt of lengi á frv., en það er rakalaus sleggjudómur. Nefndin hefir haft fjölda mála meðferðis, og hafa því hlaðist á hana mikil störf, einkum skrifarann, enda ákvað hún í upphafi og með öllum atkvæðum að bera tillögur sínar um tekjuauka þann í deildinni, áður en hún réði til að fella nokkurt frv., er til hennar hafði verið vísað. Og það var eðlilega sjálfsögð aðferð.

Það eru margar nefndir hér í deildinni, sem hafa haft litlum störfum að gegna, og eru nú fyrst að skila álitum sínum, og enginn atyrt þær. Það er því undarlegt að menn skuli vera að slá sig til riddara á skattanefndinni, sem hefir haft vandasömustu málin til meðferðar, og engan stuðning hefir haft í undirbúningi stjórnar eða verki milliþinganefndar. Með þessum orðum legg eg það til að frumv. þetta verði felt. Það er áreiðanlegt, að hitt frumvarpið kemst á dagskrá mjög bráðlega. Hæstv. forseti spurði mig í fyrsta sinni í gær hvenær eg gæti lokið við nefndarálitið, og sagði eg að eg mundi gera það í gær eða í dag, enda var það til í gær. Það er því fullkomlega óþarft að leggja svo mikið kapp á að koma Ed. frumv. fram. Hitt frumvarpið getur komist á dagskrá á morgun með afbrigðum frá þ. s., og prýðilega komist út úr þinginu á skemri tíma en 8 dögum. Hitt var brot á þingsköpunum, sem gera átti á dögunum, að þvinga stj.frv. úr nefnd. Það hefði verið ótvírætt brot á niðurlagi 17. gr. þingsk. Þar segir:

„Eigi má taka málið að nýju til umræðu, fyr en að minsta kosti 2 nóttum síðar en nefndarálitinu er útbýtt“.

Og þá má auðvitað ekki taka málið til umræðu áður en nefndarálitið er orðið til, enda til forsetaúrskurður Ed. mínu máli til stuðnings frá 1887. Stj.skrárnefndin hafði klofnað og vildi minnihlutinn láta taka málið fyrir eftir áliti sínu, en meiri hlutinn var ekki tilbúinn. Forseti, Á. Thorsteinsson landfógeti, úrskurðaði að óheimilt væri að taka málið fyrir, fyr en nefndin hefði lokið störfum sínum, en áminti jafnframt nefndina um að ljúka störfum sínum sem fyrst. Úrskurður forseta var laukréttur, en hér var farið fram á lagabrot á dögunum. Mér sárnaði það, sárnar það altaf þegar augljós lög eru brotin (H. Hafstein: af öðrum!) Eg brýt ekki lög vísvitandi, en hér hefði brotið verið svo augljóst, að vísvitandi hefði orðið að vera lögfróðum mönnum.