16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Ráðherrann (H. H.):

Eins og öllum er kunnugt er svo til ætlað að störfum þingsins sé lokið svo snemma, að þingmenn geti komist af stað með Austra. Nú er 16. ágúst, skipið á að fara sunnudagsmorguninn ,25. þ. m. og ekki eftir nema rúm vika af þingtímanum. Það er því augljóst að ekki má gera sér það að leik að draga málin von úr viti, ef þau eiga að geta náð því að fá framgang.

Hér er um skattamál að ræða, sem mörgum þykir máli skifta að komist frá þinginu; á stjórnarfrumv. um þetta efni hefir háttv. skattanefnd setið til þessa, og þess vegna hefir Ed. neyðst til að taka málið upp hjá sér með nýju frv. Það frumvarp hefir nú verið löglega afgreitt frá Ed. og á það því ekki eftir nema tvær umræður í þessari deild til þess að komast í kring.

Ef farið væri að ráðum háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), þá væri kastað burtu öllu starfi Ed. í þessu máli og þyrfti að byrja á nýjan leik hér í deildinni og láta frumvarp sama efnis, er tafist hefir til þessa, ganga fyrst í gegnum tvær umræður hér og síðan þrjár í Ed. Er nú nokkur skynsemi í slíku, ef menn á annað borð vilja unna þinginu frjáls atkv. um málið? Eg sé það ekki.

Eg fer ekki í kappræður við h. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) um verksvið deildanna né heldur mun eg svara hinum rangsleitnu árásum hans á milliþinganefndina. Eg get geymt það þangað til hið frækilega nefndarálit hans um stjórnarfrumvarpið kemur til umræðu — ef eg þá tel ómaksins vert að elta ólar við speki hans.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) vil eg svara því, að eg álít að það eitt hafi verið gert hér, sem er lögum samkvæmt Það er ekkert í stjórnarskránni sem bannar að slíkt frumv. komi fram í Ed. Hver þingm. hefir rétt til að koma með frv. til skattalaga, bæði Ed. og Nd., og stjórnarskráin segir beint út, að hvor deildin um sig hafi rétt til að stinga upp á lagaboðum, og samþykkja þau fyrir sitt leyti undantekningarlaust (sbr. 21. gr. stjskr.), enda er það alls ekki óþekt, að fjármál hafi fyrst verið rædd í Ed. Árið 1903 var t. d. að því er mig minnir, borið fram í Ed. hið fyrsta lántökufrumvarp, frumvarpið um heimild fyrir stjórnina til að taka 1/2 miljón kr. lán vega tekjuhallans þá, og mörg fleiri dæmi mætti eflaust finna. Það er að vísu óviðkunnanlegt og getur í sumum tilfellum verið óheppilegt að tvö frumv. sama efnis liggi fyrir þinginu í einu, en í þingsköpunum er ekkert ákvæði, sem bannar það og mörg dæmi mætti nefna að svo hefir verið til þessa. Árið 1901 voru tvö stj.skr.frv. í einu borin fram, árið 1902 lágu líka tvö stjórnarskrárfrv. fyrir þinginu á sama tíma, á síðasta Alþingi, 1911, var tveim stjórnarskrárfrv. vísað til svona nefndar, og á þessu þingi hefir hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B) sjálfur borið fram hér í deildinni frumvarp um sama efni og með nálega sömu fyrirsögn eins og frumvarp, sem stjórnin bar fram í Ed. og var þar í nefnd. Eg á við frumvarpið um eftirlit með þilskipum. Hér hefir því ekki verið gert annað en það sem löglegt hefir verið talið og áður tíðkað.

Nú á að slá málið niður með því, að hið langþreyða nefndarálit skattanefndar vorrar, stjórnarfrumvarpið, sé loksins komið. Jú, viti menn! En þegar það loksins kemur eftir strangar og langar fæðingarhríðir frá þingbyrjun, þá er þessi hálfönnur blaðsíða, sem álitið nær yfir alls, eintómur útúrsnúningur og skætingur til milliþinganefndarinnar, sleggjudómar en ekkert, sem gefi neina rétta eða rökstudda leiðbeining um hvort frumvarp um gjald á síldarafurðum og fiskafurðum sé tímabært eða ekki.

Það er kunnugt, að fám dögum eftir þingbyrjun var nefndin búin að afráða að ráða deildinni frá því að samþykkja þetta frumvarp, eins og öll frv. milliþinganefndarinnar yfirleitt og hefði því verið hægt að koma með þetta pródúkt þegar fyrir mánuði síðan. En hv. skrifari nefndarinnar hefir ekki haft tíma! Það er ekki hægt að lá þessari háttv. deild það, þó hún álíti að hún hafi líka rétt til að hafa skoðun á málinu eins og þessi háttv. nefndarskrifari hefir sína, og því var það ekki nema alveg eðlilegt, að hún um daginn með áskorun meiri hluta þingdeildarmanna um að taka málið á dagskrá, sýndi b. nefnd, að hún gat haft öllum höndum við nefndina, ef því var að skifta.

Ákvæði þingskapanna sem hv. 1 þm. Rvk. (L H. B) vitnaði í, snertir ekki þessa spurningu, heldur á að eins við það, hversu lengi nefndarálit eigi að liggja til athugunar áður en málið sé tekið á dagskrá afbrigðalaust Sama valdið sem skipar nefndir og felur þeim mál til íhugunar, getur auðvitað tekið þau frá nefnd aftur, ef sérstök ástæða virðist til. Og hér var sú sérstaka ástæða, að það var í almæli, að sumir, sem mikið vilja láta til sín taka í nefndinni, hefðu ákveðið það þegar fyrir þing, að ekki eitt af frumvörpum milliþinganefndarinnar ætti að fá að ganga fram, enda er sagt að það hafi verið leiðarstjarna hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.), að sjá um það að allar uppástungur nefndarinnar yrðu kæfðar, hvort sem það kemur til af því, að hann álítur þær svo vitlausar eða ástæðurnar eru aðrar.

En nú voru frumvörpin lögð fyrir þingdeildina en ekki fyrir hann einan, og fyrst nefndin ekki gat ráðið við skrifarann varð deildin að sýna, að hún réði við nefndina.

Háttv. þm sagði, að þetta frv. sem nú liggur hér fyrir frá Ed. hefði verið borið fram í Ed. fyrir neðanjarðar forgöngu mína. Eg lýsi þetta ósatt. Eg vissi ekkert um frumvarpið fyr en það var komið á prent. Eg vísa til baka hinum móðgandi ummælum hans um Ed. í sambandi við þetta mál.

Eins og eg gat um áðan ætla eg ekki að svara árásum hans á milliþinganefndina; að eins vil eg geta þess, að aðdróttun hans til hennar um heimsku og vanþekkingu á gildandi lögum byggist á lítilfjörlegri pennavillu eða prentvillu í athugasemd við frumvarpið, sem engum mentuðum mönnum annarsstaðar mundi detta í hug að leggja neina áherzlu á, því að slíkt kemur ekkert efni málsins við, og mundi ekki nefnt nema þá með kurteysri bending til athugunar. En þannig fer enginn með lítilfjörlega og málefni óviðkomandi skekkju, nema markmið hans sé að gera þeim, sem hlut eiga að máli til ósóma. Eg beini þessum orðum mínum beint til þess þingmanns sem skrifaði nefndarálitið, en ekki til nefndarinnar í heild sinni.

Um frumvarpið sjálft vil eg taka það fram, að meðan útflutningsgjald er á fiski og lýsi yfirleitt, þá má, samræmis vegna, ekki sleppa þessu gjaldi sem það fer fram á. Það má vera að 30 aura tollur á síldarlýsi sé nægilegt en þó held eg að það þoli vel 50 aura toll; en það er mér ekkert kappsmál. En að sleppa tolli á fóðurmjöli og áburðarefnum úr síld, er ástæðulaust meðan útflutningsgjald er af samskonar afurðum af hval. Það getur verið álita mál hvort brýn þörf er á gjaldi á áburðarefni nú þegar, en það munar líka litlu fyrir landssjóð. Eg mæli með br.till. hv. þm. Ak. (G. G) að bæta við ákvæðum um tollinn af síld, sem ekki er pökkuð í ílát. Það getur verið, að líta megi svo á, að síld sem flutt er út umbúðalaus í farmrúmi skips, sé gjaldskyld eftir núgildandi lögum um útflutningsgjald á síld; en gjaldið er þá alt of hátt í samanburði við síld í umbúðum, sem eingöngu hefir verið miðað við þegar gjaldið var álagt, og það getur í öllu falli ekki skaðað, að beint og ótvírætt ákvæði um þetta efni sé nú sett í lögin.

Eg vil að eins bæta örstuttri leiðrétting við það sem eg sagði áðan. Það var misminni að lagafrumvarpið um lántöku fyrir landssjóð frá 1903 hafi fyrst verið borið upp í Ed. Það kom frá fjárlaganefnd Nd. Þessa upplýsingu á eg að þakka háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.). En eg tel víst, að önnur dæmi megi finna, þegar tími vinst til að leita í þingtíðindunum. Eg legg þó lítið upp úr því, þar sem orð og ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar um þetta efni eru alveg ótvíræð og hiklaus:

„Hvor alþingisdeildin fyrir sig á rétt á að stinga upp á lagaboðum og samþykkja þau fyrir sitt leyti“.

Í þessu ákvæði felst næg heimild til þess að bera megi upp slíkt frv. í Ed. Um hitt atriðið, hvort rétt hefði verið að vísa málinu frá, vil eg benda á 28. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir:

„Þegar lagafrumv. er samþykt í annari hvorrl þingdeildinni, skal það lagt fyrir hina deildina í því formi, sem það er samþykt“.

Það hefði því verið beint stjórnarskrárbrot að leggja þetta frv. ekki fyrir Nd.