16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Bjarni Jónsson:

Það er að bera í bakkafullan lækinn að vera að víta Ed. fyrir það, að verða að verkfæri til þess, að ná málum af nefndum úr Nd. Allir geta séð hve ódrengilegt þetta er og undarlegt er það, að Ed. skyldi einmitt vera að hrifsa þetta mál af nefnd, þar sem mörg önnur, og það mikilsverðari mál liggja í miklu verri nefndum, en þessari. Stjórnarskrármálið hefir hefir nú t. d. beðið um alt þingið. Ed. hefði átt að taka það af nefndinni, en Ed. þykir það ef til vill minna vert en lýsið.

Hvað snertir ræðu háttv. þingm. Ak. þá tel eg það ganga fíflskap næst að samþykkja lög, sem leggja gjald á eina þjóð, Norðmenn, og það þjóð, sem við einmitt nú erum að leita samninga við um mikilsvert málefni. Norðmenn myndu ekki álíta það neinn vinsemdarvott að við færum að leggja toll sérstaklega á vöru þeirra. Að leggja þennan toll á, er það sama sem að taka aftur áskorunina til stjórnarinnar í dag, því enginn efi er á því, að svona frumv. spillir voninni um góðan árangur fyrir stjórninni.

Eg er samþykkur háttv. þingm. N-Þingeyinga (Ben. Sv.). Harla undarlegt að leggja toll á iðnaðarfyrirtæki, sem enn eru ekki sett á stofn, einkanlega þegar iðnaðarfyrirtækið er það, að vinna nýta vöru úr ónýtu rusli.

Engin ástæða er heldur til þess að leggja toll á þetta, þó útlendingar eigi í hlut. Þykir mér það herfilegt, ef sú venja fer að komast á hjá okkur, að við tökum 2 aura af útlendingum fyrir það sama, sem við borgum 1 eyri. Ef þessari venju heldur áfram verðum við innan skamms að endemi um allan heim. Lánstraust landsins er nú þegar orðið afleitt, illmögulegt nú orðið að selja ágæt verðbréf, því Íslendingar eru farnir að fá orð fyrir að vera fjárglæframenn, og þegar nú þar við bætist að útlendingum er selt alt dýrara en Íslendingum, þá fer lánstraustið varla batnandi.

Landið fær aldrei lánstraust með þessu móti, og auðsætt er það, að þeir menn, sem eru slíkum lögum hlyntir, láta sér í léttu rúmi liggja, hvort Íslendingar verða nokkurn tíma sjálfstæðir eða ekki.

Tekjur, sem koma í landssjóð á þennan hátt, eru fljótteknar, en illa fengnar og bera því engan góðan ávöxt. Er því engin ástæða til þess að samþykkja þetta frv.

Eg vil að endingu taka undir með hv. þm., að órétt væri af Ed. að taka þetta mál af nefndinni í Nd. Þetta og þvílíkt má hindra með nýja stjórnarskrárfrumvarpinu, sem afnemur alla konungkjörna þingmenn, enda mun ekki af veita, ef Ed. ætlar að fara að haga sér þannig, ef Ed. ætlar að fara að skoða sig eins og lávarðadeild, en okkur smælingjana í neðri deild eins og nokkurs konar „próletara“, sem ekki hafi vit á neinu og því eigi engu að ráða.

Viðvíkjandi því, að hækka eigi tollinn á síldarlýsi, þá sé eg enga ástæðu til þess, að hærri tollur sé á því, en öðru lýsi. Er nægilegt að tollurinn sé 30 aurar af hverri tunnu, eins og ákveðið er í lögunum frá 4. Nóv. 1881.

Eg sé mér ekki fært að tala lengur að þessu sinni. Vil eg þó að menn ræði málið nákvæmlega, því þó málið sé ef til vill vel undirbúið frá Ed., þá er þó ekki úr vegi að Nd. skoði það betur og jafnvel vísaði því til skattamálanefndar.

Vil eg þó ekki gera það að tillögu minni, fyr en umræðum er lokið.