16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Ráðherrann (H. H.):

Fáein orð.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), gaf það í skyn, að með kolafrv. milliþinganefndarinnar sé framið brot á þjóðarréttinum, og vitnað í Hagerup því til sönnunar. En þetta hefir Hagerup aldrei sagt, þótt hann væri málspartur þar, en úrskurðarvald ekki. Ákvæði kolafrv. um að heimta dálítið hærra landssjóðsgjald af kolum, sem seld eru útlendum skipum, heldur en hið almenna einkasölugjald, en nákvæmlega sama, eins og ef lagt hefði verið á kolin útflutningsgjald, sem mismuninum nemur. En það er aftur nákvæmlega sama leiðin sem Englendingar fóru í Búastríðinu og þar á eftir. Það mun sýna sig eftir nokkur ár, að menn munu skoða frv. í öðru ljósi en nú er gert af sumum og gæti eg jafn vel trúað því, að háttv. 1. þm. Rvk. kynni þá einhvern tíma í byrjun þings að sæta lagi að verða öllum öðrum fyrri til að bera einmitt samskonar frumv. fram sem flutningsmaður.

Sami háttv. þm. brá milliþinganefndinni um að það væri sprottið af vanþekkingu hennar, að stinga upp á útflutningsgjaldi á síldarlýsi, þar sem það gjald mætti heimta eftir útflutningsgjaldslögunum frá 1881. En það er öllum kunnugt, að þegar þau lög voru sett var ekkert til, sem hét síldarlýsi. Það er alveg nýtilkomin vara, óþekt hér áður. Stjórnarráð var einnig í vafa um, hvort taka mætti gjald af þessari nýju vörutegund sem öðru lýsi, og mörgum fleiri þótti það vafasamt. Nefndinni virtist því rétt, og í öllu falli engu til spilt þótt tekið væri upp um þetta skýrt ákvæði.

Að þetta frv., verði það að lögum, muni spilla fyrir væntanlegum samningaumleitunum við Norðmenn, tel eg mjög ósennilega til getið. Það eru engar málaleitanir frá þeim um það, að sleppa þeim frá almennum gjöldum hér, heldur um alt annað efni, enda er frv. alls ekki beint á móti þeim sérstaklega.

Það eru fleiri en Norðmenn, sem eru farnir að bræða síld og búa til úr henni fóðurefni nyrðra. Stærsta verksmiðjan á Siglufirði, sem þetta hefir með höndum, er ekki rekin fyrir norskt, heldur þýzkt eða hollenzkt fé.