16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Eggert Pálsson:

Eg vil gera stutta athugasemd út af þeim orðum hæstv. ráðherra (H. H.) að einn maður hafi ráðið því í nefndinni að nefndarálit um þetta mál sem um er að ræða komi ekki fram fyr en nú. Þetta er ekki rétt. Þó ekki sé alment leyft að segja frá því, sem gerist í nefndum, þá finn eg þó skyldu hjá mér sem formaður nefndarinnar til að leiðrétta þessi ummæli. Þegar um það var rætt hvort senda ætti þetta mál frá nefndinni inn í deild með nefndarál. áður en önnur mál væru frá henni komin, þá voru við atkvæðagreiðslu um það þrír nefndarmenn með því, þrír í móti, en einn greiddi ekki atkvæði. Þetta olli því að dráttur varð á að nefndarlitið kæmi fram. Allir vita að ekki eru svo margir dagar síðan hin málin, lotterífrv., verðtollsfrv. og farmgjaldsfrv. komu frá nefndinni, að hægt sé að gera kröfu til að einn maður hafi á þeim tíma afkastað mörgum nefndarálitum. En það er satt, sem skrifari nefndarinnar hefir tekið fram, að hann hefir reynt að koma skriftunum upp á meðnefndarmenn sína, en þeir hafa færst undan, og talið það skyldu sem á honum einum hvíldi.