19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

[Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason):

Efni frv. þessa var rætt svo rækilega, þegar frv. Ed., sem nálega orði til orðs var samhlj. þessu, var til umr. hér í deildinni, að ekki er ástæða til að fara um það mörgum orðum, enda tilgangslaust eftir því sem sakir nú standa.

Aðeins skal mint á það, að óþarfi er að lögleiða nú toll af síldarlýsi, því að það hefir verið gjaldskylt síðan í ársbyrjun 1882 samkv. lögum 4. jan. 1881, þó að milliþinganefndin síðasta hvorki vissi það, né heldur hitt, hve hár tollur er af algengu lýsi, og sátu þó í nefndinni 2 gamlir tollheimtumenn.

Allir ættu því að vera sammála um að 1. liður 1. gr. eigi að falla, en 2. og 3. liður frv. eiga líka að falla. Lögleiðing tolls á áburðar- og fóðurefnum úr síld gæti dregið úr frambúðartekjum landssjóðs af þessum tollstofnum. Það er sem sé í ráði að stofna hér verksmiðjur til þess að framleiða þessar vörur, t. d. eina í Vestmanneyjum, en vafalaust verður, eftir því sem kunnugir menn hafa sagt mér, hætt við að stofna þær, ef nú verður lagður nýr tollur á þessar vörur.

Í öðru lagi er það undarlegt, ef við förum að lögleiða þennan toll, sem aðallega kemur niður á Norðmönnum, einmitt nú þegar ráðherra er í samningum við þá um lækkun á tolli á íslenzkum hestum og saltketi í Noregi. Það hefði varla góð áhrif á afdrif þeirra málaleitana, ef við færum nú að íþyngja norskum fyrirtækjum með nýjum sköttum. Hér við bætist að engin sennileg ágizkun liggur fyrir um það, hve tollurinn muni nema miklu, yrði líklega lítilræði, sem ekkert dygði. Nefndin leggur því eindregið til að frv. stjórnarinnar verði felt.

') Það sem er hér í hornklofum er eiginlega 2. umr. um stjórnarfrv., og á inn á undan strykinu á 121. dálki. Málabókin skakt færð.