23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Bjarni Jónsson:

Eg lýsi yfir því, að eg mun greiða atkvæði með tillögu hv. 1. þm. Skagf. Það á bezt við eftir þeim ummælum, sem fallið hafa á þessu þingi um ferðareikninga og annað, að menn sýni, hvern áhuga þeir hafa á þingmálum án dagpeninga, og vil eg gjarna vera með í þeim hóp.

En eins og eg sagði síðast, hygg eg að þetta frumv. eigi ekkert erindi á þetta þing. Frv. er flýtisverk og þarf betri undirbúning. En það er skrítið, að sjá ferðakostnað úr kjördæminu Danmörk ætlaðan 190 kr. (Pétur Jónsson: Sýslan Danmörk). Ojá, en það er meinlaus misskilningur og gerir ekki til. En hvernig á sá þingmaður að fá bæði ferðakostnað og dagpeninga að auki. — Þetta er matur fyrir hv. þm. Seyðf., og býst eg við að hann athugi þetta ákvæði og leggi til að fella það eða setja nefnd í það. Hér er að minsta kosti ástæða fyrir hann til að koma með fyrirspurn.

Annars er eg helzt á því að fella þetta frv. vegna ónógs undirbúnings, ella er eg samþykkur till. hv. 2. þm. Skagf.