24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg er enn sama sinnis og síðast þegar mál þetta var til umræðu hér í deildinni. Eg álít það óforsvaranlegt í alla staði að lemja þetta frv. gegn með þessum feikna hraða. Það stríðir á móti réttum meginreglum að gera mun á kaupi alþingismanna eftir hví hvort þeir búa í Reykjavík eða utan Reykjavíkur. Hin seinni árin hafa þingmenn utan Reykjavíkur reiknað sér tvöfalda dagpeninga, það er að segja, talið fæði sitt með ferðakostnaði, og auk þess talið sér dagpeninga, sem er ekki annað en fæðispeningar en ekki kaup, og sömu vitlausu reglu er fylgt í þessu frv. er hér liggur fyrir, t. d. er ferðakostnaðurinn úr Suður-Múlasýslu, úr fjarlægasta stað sýslunnar (Geithellnahreppi), er mjög hœg ferð alla leið til Eskifjarðar á 3 dögum og til baka aftur er hægt að fara (með hestana lausa) á tveim dögum (frá Eskifirði til Berufjarðar og frá Berufirði heim). Þetta eru 5 dagar fram og aftur. Jafn lengi fyrir þingmanninn af þingi, hvort sem hann leigir hesta og mann frá Eskifirði, eða lætur sækja sig að heiman, aðrir 5 dagar. Þetta eru 10 dagar alls. Eg reikna 3 hesta og 1 fylgdarmann, hestinn á 2 kr. á dag og manninn á 3 kr., eru 9 kr. á dag, gerir í 10 daga 90 kr. 1. farrými á gufuskipi fram og aftur („tour og retour“) kostar 25 kr. 60 aura allur ferðakostnaður fram og aftur kostar þannig 115 kr. 60 aura. Fyrir hvað eru þá þær 64 kr. 40 aurar, sem fram yfir eru. Slík eigingirni sem hér kemur fram hjá þm. utan Reykjavíkur á ekki og má ekki ganga óátalin gegn um deildina og mér fanst rétt að benda á það svo að það sæist í þingtíðindunum að þingmenn utan Reykjavíkur hafa tvíreiknað sér fæðispeninga nú um mörg ár, meðan þeir hafa verið á ferðum til þings og frá þingi.