24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Bjarni Jónsson:

Það hefir ýmislegt komið fram í umræðunum síðan eg stakk upp á að vísa þessu máli til stjórnarinnar, sem styður að það sé gert.

Ef þetta frv. er samið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þingmenn gefi of háa ferðakostnaðarreikninga, þá sýnist mér þetta alt vera einn skrípaleikur, að taka með annari hendinni það, sem er gefið með hinni, að lækka ferðakosnaðinn, en hækka dagpeningana. Eg ímynda mér, að þingmenn vilji ekki vamm sitt vita í að gefa of háa ferðareikninga.

Hvað halda menn að danski þingmaðurinn þurfi? Ferðakostnaðarreikningur hans 1909 var 310 kr., en nú er honum ætlað að komast af með 190 krónur.

Eg verð að álíta, að hv. Ed. hafi verið of sparsöm í þessum áætlunum sínum og borið rétt þingmanna fyrir borð. Satt að segja þykir mér það nokkuð hart að ákveða ferðakostnaðinn með þessum hætti, og svona miklu lægri heldur en áður hefir tíðkast. Mér finst með þessu vera kveðinn upp harður dómur yfir þeim þingmönnum, sem hafa gefið þá. Það væri sæmra að láta fæðispeningana halda sér eins og nú er og stjórnarráðið semdi upp ferðakosnaðarreikningana.

Viðvíkjandi því, hvað það kostar að ferðast milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur skal eg geta þess, að eg get daglega fengið vagn með 4 góðum sætum, hesti fyrir og ökumanni fyrir 5 krónur. (Ráðherra: Það eru betri kjör en aðrir fá). Nei, eg veit ekki betur en þetta sé vanalegt, að minsta kosti hefi eg fengið vagninn hvað eftir annað fyrir þetta verð. (Þorleifur Jónsson: Eg hefi borgað 10 kr. í dag fyrir vagn til Hafnarfjarðar). Eg get ekki vitað, hvað þingmenn eru örlátir þegar þeir semja fyrir sig, eða hvað menn eru gjarnir á að borga meira en nauðsynlegt er. Mér dettur í hug sagan af Brandi örva, sem gaf af sér kápuna. En það getur ekki verið rétt að reikna ferðakostnaðinn eftir því, hvað einstakir menn eru örlátir.

Það sem eg vildi leggja áherzluna á, er að jafna mismuninn, sem er á ferðakostnaðinum, því hann virðist sumstaðar keyra fram úr hófi. Væri nær að færa það til sæmilegs hófs og láta fæðispeningana halda sér, 6 kr. á dag. Því að annað en fæðispeningar er þetta þingsetukaup ekki og á ekki að vera.