20.08.1912
Neðri deild: 30. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

37. mál, vörutollur

Sigurður Eggerz:

Jeg skal ekki verða langorður við þessa 1. umr. málsins.

Frumv. er þá líka svo nýtt, að jeg hef ekki haft tíma til þess, að kynna mjer málið, og á umr. í Nd. hlýddi jeg ekki vegna tímaskorts.

Jeg skal leyfa mjer að minna á það, að þegar við flutningsmenn kolatollsfrumv. bárum það frumv. fram, þá bentum við á það, að miklar líkur væru á því, að það yrði örðugt, að koma þessum umfangsmiklu tollfrumvörpum í gegnum þingið, þar sem tíminn væri orðinn svo stuttur.

Við bentum sömuleiðis á það, að frumvörpin færu inn á nýjar tollbrautir, og að örðugt væri að átta sig á þessum nýjungum á jafn stuttum tíma.

Þetta sannaðist og, þar sem hin háttv. deild feldi frumv. um verðtoll; og má þá fara nærri um það, hversu langan tíma hin háttv. deild fái nú til þess að athuga frumv. það, er hjer liggur fyrir, þar sem ekki eru eftir nema örfáir dagar.

Hið annað, sem alstaðar hefur veitt erfiðast að ákveða, er það, hvernig tollarnir eiga að koma niður. Hjer er þyngdin aðallega látin ráða, og það er gersamlega rangt.

Þetta gjald kemur því ranglátlega og illa niður. Þegar kolatollurinn var til umræðu hjer í háttv. deild, var það haft á móti honum, að hann lenti að mestu leyti á sjávarútgerðinni, en í þessu frumv. er líka tollur á kolum, 1 króna á smálest hverri, en auk þess er hjer tollað alt salt, ennfremur allar matvörur, og yfirleitt allar nauðsynjavörur, og þó ekki væri nema af þeirri ástæðu einni, þá væri sjálfsagt að athuga frumv. vendilega, og gæta að því, hvert gjaldið gæti ekki komið jafnar og réttlátlegar niður. Jeg kysi fyrir mitt leyti, að allur tollur af matvöru og salti yrði feldur burtu.

Það er annars trauðla hægt, að samþykkja frumv. þetta nú á þessu þingi, svo framarlega sem háttv. þingdeildarmenn vilja átta sig á því, hvernig gjöldin koma niður, og að hve miklu leyti þau verði ranglát. Slík mál eins og þetta þarf miklu vendilegri frágang, en hægt er að veita á tæpri viku.