23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

5. mál, eftirlit með skipum og bátum

Lárus H. Bjarnason:

í Nd. kom fram í þingbyrjun frv. um skoðun á skipum. Það var borið fram í því skyni að bæta úr gallanum á lögum, sem til eru um það efni frá 1903, og tryggja betur framkvæmd laga um það efni. Málinu var vel tekið hér í deildinni. Það eru að eins 2 menn, sem lögðust á móti því, en þeir gerðu það líka með þeim hætti, að þótt það hefðu verið sjálfir útgerðarmennirnir, sem átt hefðu einhverja af ónýtu döllunum, sem fyrir svörunum hefðu staðið, þá hefðu þeir ekki getað ráðist með meiri áfergju á frumv. Samt komst nú frv. klakklaust hér í gegnum deildina. En þegar það kom til Ed. andaði kaldur gustur á móti því. Þá var tekið upp það fangaráð — eg veit ekki hvort það hefir verið runnið undan rifjum hæstv. ráðh., eins og svo margar af tillögum Ed. — að steypa saman 3 frumvörpum í eitt, nfl. frv. Nd. og 2 stjórnarfrv., sem voru á ferðinni í þeirri deild. Hæstv. ráðh. orðaði a. m. k. á þessa leið hér í deildinni. Frv. Nd. var útbýtt í Ed. 5. ágúst, kom til 1. umr. 7. ágúst, en ekki til 2. umr. fyr en 19. ágúst og til 3. umr. 21. ág. Eg veit ekki hvers vegna þetta fangaráð hefir verið tekið, en í rauninni var það sama sem að drepa frv. 21. ág. var orðið svo áliðið þingtímans, að óhugsandi var að koma frv. úr því með eðlilegu móti gegnum Nd. og því síður aftur til Ed. eða eftir atvikum gegnum samein. þing. Það hefir máske þótt betur fara á því, að vopnið væri falið. Úr því frv. þetta kemur hingað fyrst daginn fyrir þingslit, getur það ekki orðið að lögum að þessu sinni. Hafi frv. Nd. verið til bóta, þá getur ekki orðið úr þeim umbótum í þetta sinn. Það er ekkert annað en leikaraskapur að vera að greiða atkv. um þetta frv. úr því vissa er fyrir, að deildin hefir ekki tíma til að afgreiða það, leikaraskapur, sem mér ekki dettur í hug að taka þátt í. Annars er frv., eins og það liggur fyrir, óhafandi bæði að efni og orðfæri. í 1. gr. er t. d. vísað til laga, sem ekki eru til, í 3. gr. er gert ráð fyrir að hægt sé að senda skip út áður skoðun fari fram.

Í 14. gr. vantar ákvæði um, hvert sektirnar skuli renna. Þetta eru nú aðeins fáeinir af efnisgöllunum, svo að eg ekki minnist á málið, t. d. er í frv. talað um að hafa „fast aðsetur um borð“. Frv. er yfirleitt miklu líkara því, að það væri orðið til „um borð“ í einhverri duggunni, en í sæmilega skipaðri þingdeild. En það er ekki til neins að tala um það, því að tíminn er of naumur til þess að hægt sé að laga frv. En það vildi eg taka fram að síðustu, að það er ekki flutningsmönnum Nd. frumv. að kenna, þótt einhver duggan eigi eftir að kollvæta meir en hálfum þriðja tug vaskra manna, frá upp undir tuttugu giftra kvenna og nokkrum tugum óuppkominna barna.