14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

15. mál, útrýming fjárkláðans

Ólafur Briem:

Á þinginu 1911 var lagt fyrir Nd. frv. til laga um útrýming fjárkláðans, sem fór fram á tvíböðun. Það var samþykt hér í deildinni með litlum atkvæðamun. í hv. Ed. urðu aftur á móti úrslit þess þau, að því var með 8 atkv. gegn 1 vísað frá með rökstuddri dagskrá, er fór fram á það við stjórnina, að hún legði fyrir næsta þing frv. til laga um þrifaböðun. Þar sem stjórnin nú hefir ekki tekið þessa ósk til greina, heldur farið í sama farið og seinast að leggja fram frv. um tvíböðun, þá hefði að mínu áliti legið beinast við, að hv Ed, fyrst hún sá sér ekki fært að ganga að þessu frumv. nú, hefði haldið sama striki og seinast. En hún hefir viljað fara varlegar í sakirnar, enda fer þessi þingsályktunartill. mjög skamt.

1. liður fer fram á það, að stjórnin á næsta hausti beiti ákvæðum gildandi laga og láti tvíböðun fara fram, en þó að eins á þeim stöðum, þar sem kláði eða sterkur kláðagrunur er. Það ætti nú að mega ætlast til, að stjórnin í þessu efni framfylgdi gildandi lögum, þótt hún fengi ekki sérstaka áskorun um það frá þinginu, en að öðru leyti er ekkert við þennan lið tillögunnar að athuga.

2. liður leggur það til, að stjórnin safni skýrslum um alt land um útbreiðslu kláðans og fari þar eftir skoðun, sem á að fara fram í næstkomandi aprílmánuði. Þó að það hafi nú sýnt sig, að slíkar skýrslur séu ekki ávalt fullkomlega ábyggilegar, komi seint og liggi síðan ónotaðar hjá stjórnarráðinu, þá virðist mér samt ekki rétt að leggja á móti því að þeim yrði safnað, ef þær kynnu að verða að nokkrum notum.

Hitt virðist mér óheppilegt, að skoðunin fari ekki fram fyr en í aprílmánuði. Það er nokkuð seint, þar sem þingið á að koma saman 1. júlí og yrði þá naumur tíminn til þess bæði að safna skýrslunum, senda þær til stjórnarráðsins, athuga þær þar og byggja tillögur á þeim. Það væri eðlilegra, þar sem búfjárskoðun fer fram á tímabilinu frá 1. marz til 15. maí, að þessi skoðun færi fram dálítið fyr, eða ekki seinna en í marzmánuði, en vonandi getur stjórnin gert ráðstöfun til þess þrátt fyrir þetta óhentuga ákvæði tillögunnar.

3. liður fer fram á það, að stjórnin leiti álits fjáreigenda í landinu um það, hvort þeir óski heimildarlaga fyrir samþyktum um árleg þrifaböð á sauðfé. Þetta þykir mér of skamt farið, þar sem það var tilætlun Ed. 1911, að fyrirskipað væri með lögum almenn árleg þrifaböð á sauðfé, hefir það meðal annars vakað fyrir henni, að árleg þrifaböðun alls sauðfjár í landinu mundi miða til þess að hindra það, að fjárkláðinn, að svo miklu leyti sem hann ætti sér stað, breiddist út. En fyrir það verður ekki girt með heimildarlögum um samþyktir, því að verið gæti, að samþykt yrði gerð í einu héraði en ekki í því næsta og komi það því ekki að fullum notum að því er hindrun á útbreiðslu kláðans snertir.

Líka er þess að gæta, að sé tilætlunin sú, að fara ekki lengra en það að gefa út heimildarlög um samþyktir, þá er ástæðulaust að fara að bera það undir fjáreigendur. Það mætti alveg eins samþykkja lögin strax, þar sem þeim yrði það í sjálfsvald sett, hvort þeir vildu nota heimildina, eða ekki. Þessi liður er því meinlaus og gagnlaus.

Þó svo standi í tillögunni, að stjórnin skuli bera þetta undir atkvæði fjáreigenda, þá býst eg ekki við, að hún fari að láta fram fara almenna atkvæðagr. um þetta mál, heldur láti sér nægja að leita álits viðkomandi hreppsnefnda og sýslunefnda. Eg fyrir mitt leyti er eindregið með því að sett séu lög um almenna þrifaböðun um land alt meðfram til þess að hindra útbreiðslu fjárkláðans og álít þar að auki að slíkt þrifabað mundi að öðru leyti margborga sig fyrir fjáreigendur. En samt sem áður vil eg ekki leggjast á móti þessari till. sem fer þá að sumu leyti í rétta átt. Og úr því mál þetta er ekki lengra komið en þegar liðið langt á þingtímann, hefi eg hvorki viljað koma fram með breyttill. né flytja nýtt frumv. og og mun því greiða atkvæði með þessari þingsályktunartillögu, eins og hún liggur fyrir.