15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

Fyrsti fundur í sþ.

Björn Jónsson:

Eftir þeim skýrslum, sem jeg hef átt kost á að sjá, er þessi kosning áreiðanlega sú gallamesta, sem dæmi eru til í þingsannálum. Jeg skal færa rök fyrir máli mínu. Kært er yfir því, að seðlar, er voru brotnir saman oftar en einu sinni, hafi verið gerðir ógildir af kjörstjórninni, en í henni sat sjálfur keppinautur mannsins, sem seðlarnir voru ónýttir fyrir. Það er að vísu ekki bannað, að frambjóðendur sitji sjálfir í kjörstjórn, en allir, sem hafa sæmilega sómatilfinningu, segja sig úr henni, þegar svo stendur á. Jeg get nefnt eitt dæmi. Það er háttvirtur 2. þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu, Jens prófastur Pálsson. Hann hefur setið í yfirkjörstjórn í sínu kjördæmi, hverja kosninguna eftir aðra, en óðara sagt sig úr henni og látið varamanninn koma í sinn stað, er hann hefir boðið sig fram sjálfur. En þessi maður, sem kallar sig þingmann Vestur-Ísfirðinga, hefur haft þá óhæfu í frammi, að segja sig ekki úr kjörstjórn, heldur sat hann þar sem fastast og notaði atkvæði sitt til þess að úrskurða sjálfum sjer kosninguna. Úr því að þess eru dæmi, að menn hafa svo sljóa sómatilfinningu, að þeir gæta ekki þess velsæmis, að segja sig úr kjörstjórn, þegar þeir eru sjálfir í kjöri, ætti að lögbanna slíkt, því það er auðsjáanlega hin mesta óhæfa. Jafnframt ætti að gera þá breytingu á stjórnarskránni, að hætta að láta þingið dæma um það, hvort þingmenn þess eru löglega kosnir. Það ætti að vera verk dómstólanna, helzt Landsyfirrjettarins, að mjer virðist.

Ég ætla að víkja nokkuð nánar að aðferðinni, sem þessi margumræddi maður, þingmaður Vestur-Ísfirðinga, beitti til þess að ná kjöri, en hún var sú, að gera ógilda seðla, sem brotnir voru saman oftar en einu sinni, en sjest hafði þegar hvolft var úr atkvæðakössunum, að mest var um slíka seðla einmitt í þeim hreppi, þar sem sjera Kristinn Daníelsson hafði flesta fylgismenn. Naut hann til þess fulltingis annars mannsins í kjörstjórninni, samflokksmanns síns, en þriðji maðurinn, oddvitinn, eini löglærði maðurinn í nefndinni, var á öðru máli, vildi taka þessa seðla gilda. Meiri hluti kjörstjórnarinnar ber fyrir sig 35. gr. kosningarlaganna: „Síðan brýtur kjósandinn seðilinn einu sinni saman.“ Hvað þýða þessi orð laganna: „einu sinni“? Það er ómögulegt að misskilja. Þau þýða: það er nóg að brjóta seðilinn einu sinni. Þá dylst nafnið, sem er tilgangur laganna. En það er ekki meining laganna að banna að brjóta seðilinn oftar saman. Það er ekki svo lítill vandi að brjóta seðil saman einu sinni, svo að nafnið sjáist ekki. Til þess veitti ekki af að hafa bókbindara við hendina til að brjóta seðilinn. Margbrotnir seðlar hafa líka oft komið fram við kosningar og alt af verið teknir gildir. Engum hefur dottið í hug að finna upp á ógildingu. Það er að vísu hægt að segja, að það geti verið fyrirfram umsamið merki milli kjósenda og þingmannsefnis, en slíkt er „Pedanteri“. Mesta heimska og hjegómi að láta sjer koma slíkt til hugar. Jeg hef verið á fyrsta kjörfundinum, sem hjer var haldinn eftir að leynilegar kosningar gengu í gildi. Fyrsti dómarinn í landsyfirrjettinum var þá kjörstjórnaroddviti. Og hvað gerir hann? Hann tekur miðana af kjósendunum, brýtur þá sjálfur saman og stingur þeim í atkvæðakassann. Þetta sýnir, hvernig hann hefur skilið lögin.

Í 39. gr. kosningalaganna er talið upp hvað valdi ógildingu seðils. Þar er þetta ekki nefnt á nafn. Ákvæðið í 35. gr. er að eins leiðbeining til kjósenda, alls ekki ógildingarsök.

Hvað á þá að gera við kosninguna? Þegar þessi eini galli á seðlunum er tómur misskilningur og vitleysa, er ekki mikill vandi að skera úr því; það á vitanlega að ónýta kosninguna.

Þar nœst er önnur spurning. Á að úrskurða þennan mann ólöglega kosinn, en taka hinn og segja: hann er kosinn? Í slíkum dæmum hefur þingið verið vant að gera kosninguna algerlega ógilda og láta kjósa upp aftur. En þingið er ekki bundið við þetta frekar en því sýnist rjett vera, einkum nú þegar margir þingmenn eru nýir. Komist þingið að þeirri niðurstöðu, að þetta sje rangt, á að breyta því. Ef sagt er, það á að fara fram ný kosning, hvað þýðir það? Svo og svo mikinn frest fyrir kjördæmið með að fá mann á þing. Rekur kjósendur á kjörfund að ástæðulausu. Gerir kjósendum á engu viti bygt ómak. Jeg ætla annars að fara nokkrum frekari orðum um, hvílíkur galli það er á lögunum, að þingið skuli sjálft skera úr um gildi kosninga, einkum þar sem flokksfylgið er mikið. Meiri hlutinn beitir minni hlutann blátt áfram stigamensku til þess að úrskurða sinn mann kosinn. Ef dómstólarnir skæru úr málinu, kæmi slíkt ekki til greina. Þá væri líka búið að útkljá málið fyrir þing, og kjördæmið væri laust við þann óhag, að vera þingmannslaust langt fram eftir þingi og ef til vill alt þingið. Þetta væri því stórmikil rjettarbót. Mjer var í gær flutt dálítil saga, sem gerðist á flokksfundi meiri hlutans og jeg ætla að segja frá, málinu til skýringar. (Aldursforseti: Þingmaðurinn er beðinn að halda sjer við efnið, það er málinu óviðkomandi, að segja sögur.) Það er einmitt til að skýra málið, en forseti getur auðvitað skipað mjer að þegja. Á jeg að hætta, eða á jeg ekki að hætta? (Aldursforseti: Jeg bið þingmanninn að halda sjer við efnið.)

Jeg hætti. En jeg ætla að bera fram tillögu um, að kosningin sje gerð ógild, en sjera Kristinn Daníelsson úrskurðaður rjettkosinn, en til vara, að kosningin sje gerð ógild og kosið sje upp aftur.