20.07.1912
Sameinað þing: 3. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

Prófun kjörbréfa

Skúli Thóroddsen:

Þegar jeg sje álit nefndarinnar í máli þessu, get eg eigi annað en furðað mig á tillögum hv. meiri hluta hennar.

Jeg sje ekki betur, en að mál þetta liggi svo ljóst fyrir, sem frekast er unt. Það er við kosningu kominn fram vilji meiri hluta kjósandanna í kjördæminu, — sá vilji, að þann manninn vildu þeir hafa að þingmanni sínum, sem eigi fjekk þó kjörbrjef. Og það að hann fjekk eigi kjörbrjef, það er sprottið af því, að hinn, sem fjekk kjörbrjefið (hr. Matth. Ól.) notaði atkvæði sitt í yfirkjörstjórninni — gegn atkvæði sýslumanns —, en með tilstyrk þriðja yfirkjörstjórnarmannsins, skoðanabróður síns, til þess að fá ógiltan 21 atkvæðaseðil.

Mjer virðist það nú liggja mjög ljóst fyrir, að þingmannsefnið, sem í kjörstjórninni sat, vissi vel, hvað hann gerði. Það fer ekki svo leynt í hreppunum, ef einhverjir kjósendur hafa margbrotið seðla sína — eða yfir höfuð ef eitthvað gerist, sem frábrugðið er að einhverju leyti í daglegu lífi —, að það frjettist ekki. Og það var hv. þingmannsefni líka fullkunnugt um, að í Auðkúlu- og Þingeyrarhreppum var kjósendum leiðbeint í þessu efni. Þingmannsefnið vissi því ósköp vel, áður en hann greiddi atkvæði í eigin máli, að margbrotnu seðlarnir hlutu að vera úr þeim hreppnum, sem hann hafði minst kjörfylgi í — enda varð og niðurstaðan sú, að af 21 atkvæðaseðli, sem ónýttur var, átti hann aðeins 7, en síra Kristinn Daníelsson 14, og hefðu þeir seðlar ekki verið ónýttir með atkvæði sjálfs þingmannsefnisins, þá hefðu úrslitin orðið önnur. Síra Kristinn Daníelsson hefði þá fengið kjörbrjefið og haft 7 atkv. fleira.

Að athuguðu fyrgreindu verð eg því að halda því fram, að við kosninguna hafi komið fram löglegur vilji meiri hluta kjósanda, sem þinginu sé skylt að virða — og mig furðar á því, að meiri hluti nefndarinnar, sem lögfræðingar hafa þó setið í skuli leyfa sjer aðra eins rökfærslu, og þá, er þeir koma fram með, að því er snertir 35. gr. kosningarlaganna.

Hv. þm. Kjósar og Gullbr.sýslu hefur að vísu tekið það glögt fram, en jeg skal þó leyfa mér, að benda á það aftur, að það er algerlega rangt hjá hv. þm. Akureyrar, að 35. gr. skapi ákveðið fast form, sem valdi ógildingu, sje eigi eftir því farið. Í greininni er aðeins um leiðbeiningu að ræða — og því geta orðin „brýtur einusinni saman“ ekki valdið ógildingu, þótt eigi sé eftir þeim farið, eins og glögt sjest af öðru í sömu gr.: þar stendur t. d., að hann eigi að gera krossinn „með blýanti, sem kjörstjórnin leggur til.“ Ef 35. grein skapaði fast form, þá ætti seðillinn að vera ógildur, ef kjósandi, t. d af. vangá, í stað þess að nota blýant kjörstjórnarinnar, tæki blýant úr sínum eigin vasa. Heldur hv. þm. Akureyrar, að slíkt valdi ógilding? Þetta sýnir rökfærsluna. Sama er og, ef kjósandi kemst hjá því, að ganga að kassanum eins og stendur í greininni, en getur seilzt til hans. Á seðillinn þá og að verða ógildur? Hve afskapleg fjarstæða slíkt væri, getur, hver maður sjeð. Þá stendur og í 35. gr. að kjósandi stingi sjálfur seðlinum í kassann. En sje hann nú svo skjálfhentur, að kjörstjórinn þurfi að hjálpa honum, á seðillinn þá að verða ógildur að áliti þessara hv. lögfræðinga?

Jeg vona nú, að allir sjái af þessu, að greinin er að eins leiðbeinandi, gefur að eins bendingar um það, hvernig heppilegast sje að fara að, til þess að alt fari vel úr hendi. —

Í 38. og 39. gr. er á hinn bóginn talið upp, hvað ógildingu kjörseðils eigi að geta valdið, og sú upptalning er úttæmandi; en þar segir í 37. gr., að eigi megi gera „rispu, blýantstrik eða önnur slík einkenni, er gert geti seðilinn þekkjanlegan.“ Ef að tvíbrotning seðils ætti að falla undir þessa grein, þá yrðu orðin „slík einkenni“ þýðingarlaus; og þá átti þar að eins að standa önnur einkenni.

Nú vitum vjer það allir, að það er vilji og andi laganna, að sá sje þingmaður, er flest atkvæði fær. Frá þessari reglu, að sá verði þingmaður, er flest atkvæði fær, gera lögin aðeins eina undantekningu, eins og sjest í 38. og 39. gr., þar sem þau krefjast þess, að sá vilji kjósandanna sje þó eigi tekinn til greina, sem ætla má að eigi sje hinn frjálsi, sanni og óháði vilji. — Í þessu þessu skyni eru ákvæðin í 38. gr. — sbr. þá og 39. gr. — tilorðin, þ. e. að ógildingu kjörseðils eigi það að valda, sjeu sett á hann auðkenni, er geti gert hann þekkjanlegan, þar sem á þann hátt mætti þá æ komast að því, hvort viðkomandi hefur kosið þeim eða þeim að skapi, — svo að frjálsi, sanni, alóháði viljinn gæti þá eigi æ neitt sín. En í tjeðum lagagreinum er nú tví— eða fleirbrotning seðlanna hvergi talið sem það, er ógildingu kjörseðils eigi að valda, og það er því ljóst, að með úrskurði sínum um ógildingu margbrotinna seðla, hefur yfirkjörstjórnin gert sig seka rjettartröðkun, og traðkar þá ekki aðeins rjetti síra Kr. Daníelssonar, þ. e. hins frambjóðandans, heldur og rjetti allra, er hann kusu, og að vísu eigi aðeins traðkað þeirra rétti, heldur og rjetti allra, þar sem það væri rjettur allra, að engum væri rangt gert.

Bæði síra Kr. Daníelsson, og kjósendur hans, gætu því eigi annað, en fundið sárt til þess, að þeir hefðu verið órjetti beittir, — og gætu þá og eigi annað fundið, en að hver einstakur þingmaður væri þeim hjálparskyldur, sem og að vísu allir, — skylt, að þola það eigi, að rjetti þeirra væri misboðið, sem gjört hefði verið.

Enginn vafi væri og á því, að hver hinna háttvirtu þingmanna, er verið hefði í sporum síra Kristins, hefði þá og fundið ríkt til hins sama, — hefði þá fundið ríkt til þess, hve vafalaus rjetturinn vœri, og hve ljótt það væri, að leyfa sjer, að koma fram með aðrar eins lögskýringar, eins og meiri hluti kjörbrjefanefndarinnar bœri á borð fyrir þingið.

En þá væri nú, að gleyma því eigi, að breyta við aðra, eins og hver háttv. þingmanna vildi, að við hann hefði breytt verið.

Í dómkirkjunni hefðu þingmenn heyrt á það bent, — þingsetningardaginn —, hve sjálfsögð, og fögur skylda það væri, að: „efla ríki sannleikans, rjettlætisins, og kærleikans,“ og hjer væri nú um það að ræða, að láta sannleikann, rjettlætið og kærleikann sigra, er til atkvæðagreiðslunnar kæmi.

En meiri hluti kjörbrjefanefndarinnar rjeði þinginu til þess, að ganga í lið með þeim, er rjettinum hefðu traðkað, og væri það í meira lagi — öfugt og ranglátt. En ef hv. þing ákveður kosningu Matthíasar Ólafssonar lögmæta, þá styður það ósannindin og órjettinn — neitar að vernda rjettlætið og bakar kjósendum og öllu landi leiða.

En hyggðu þingmenn það borga sig?

Hvað findi hver þeirra, væri honum kvöl eða sársauki bakaður?

Hann findi óefað viðkomendur fá eitthvað í staðinn, fyr eða síðar, — fráleitt það, er kvölinni, sársaukanum eða leiðanum væri betra.

En annars væri það ekkert nýtt, að þeir, sem einhverjum gerðu rangt, eða ætluðu sjer að gera það, þættust þá eigi hvað sízt æ hafa rjettinn á sína hlið.

Frá þessu sjónarmiði — og frá því einu — yrði þá og rökfærslan í álitsskjali meirihluta kjörbrjefanefndarinnar skiljanleg:

En enda þótt síra Kristinn vœri rjett kjörinn þingmaður Vestur-Ísfirðinga, hefði minni hluti kjörbrjefanefndarinnar þó eigi dirfzt, að leggja það til, að kosning hans væri samþykt — sem eitt væri þó hið rjetta og sjálfsagða —, en hefði lagt það til, að ný kosning væri látin fram fara, því að eftir það er þingið 1909 hafði kveðið upp úrskurð í kosningarmáli móti rjetti og sannleika — og hafði ákveðið, að ný kosning færi fram, þótt auðsætt væri að sá, sem ekki fjekk kjörbrjefið var rjettmætur þingmaður, þá fann það upp á því, til einhvers konar yfirklórs, að búa til ný lög þess efnis, að ef kosning einhvers þingmanns yrði talin ógild, þá skyldi altaf ný kosning fara fram. Allir hljóta að sjá, hve rangt þetta er, og hversu mikið vald yfirkjörstjórninni er fengið í hendur með því. Hún þarf ekki annað, en gera eitthvert dálítið glappaskot, til þess að þingið verði að ógilda kjörbrjefið — getur — og vjer þekkjum allir pólitíska ofsann, sem orðinn er hjer á landi — gefið einmitt þeim kjörbrjefið, sem ekki á að fá það, og knúið þannig nýa þingkosningu fram. —

Þá ber einnig að líta á það í þessu máli að þegar úrskurðarvaldið um gildi kosninga var lagt í hendur þingsins, en eigi dómstólanna, var það gert í því skyni, að þingið hefði frjálsari hendur, en dómstólarnir, þyrfti ekki að binda sig við strictum jus, en gæti þá fremur dœmt e bono et æquo, — þ. e. litið á sanngirnis- og rjettlætishliðina.

En hjer hefðu kærendurnir eigi að eins sanngirnis- og rjettlætiskröfuna sín megin, heldur og orð laganna.

Skylda þingsins, og rjettur kærandanna væri því hvorttveggja deginum ljósara.