19.07.1912
Sameinað þing: 3. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

Prófun kjörbréfa

Jens Pálsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál. En háttv. þm. Strand. gaf mjer þó tilefni til nokkurra athugasemda.

Háttv, þm. mintist á í hinni löngu ræðu sinni, að í Strandasýslu væri farið eftir því, um hvað frambjóðendurnir kæmu sjer saman.

En hvað snertir þetta tilfelli, vil jeg leyfa mjer að vekja athygli á því, að merkur maður, umboðsmaður hins fjarverandi þingmannsefnis, mótmælti því undir eins fastlega, að hinir fleirbrotnu seðlar yrðu ógiltir.

Háttv. þm. Strand. talaði af miklum móði um einhverjar þrjár háskaleiðir í máli þessu; annars virtist mjer hann viðhafa nokkuð sterk orð. Hann bar það fram, háttv. þm., að þetta gæti orðið til þess að æsa upp í kjósendum ósvifna frekju; á hverju hann byggir þessi ummæli sín, er mjer óskiljanlegt.

Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að í Kjósar- og Gullbringusýslu hafa allir vafaseðlar verið lagðir til hliðar og síðan rannsakað, hvort þeir heyrðu undir 38. gr. kosningarlaganna, því þá voru þeir auðvitað metnir ógildir, en annars ekki.

H. framsögumaður meiri hlutans sagði, að þetta umrædda fleirbrot á kjörseðli heyrði undir 35. gr. kosningarlaganna; en jeg þykist hafa leitt skýr rök að því, að grein þessi er einungis „instrúerandi“, og að ósamþýðanlegt hafi verið 17. gr. stjórnarskrárinnar og gildandi kosningarlögum, að leggja í hana annan skilning, — að minsta kosti þangað til lögin um breyting á kosningarlögunum 1909 komu til með sína 6. gr.; og jeg fullyrði, að eins eftir það hafi umrædd 35. gr. haldið sinni upprunalegu þýðing og haldi henni enn, með því að ekkert er það í nefndum lögum frá 1909, er bendi á hið gagnstæða. Jeg verð því gjörsamlega að mótmæla því, að breytingarlögin frá 1909 geri nokkra breytingu á eðli og þýðingu 35. gr.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um mál þetta.

Á eitt vil jeg þó enn minnast, það: — þingið er enginn júridiskur dómstóll um þetta mál, og því ekki bundið við bókstaf laganna, — heldur er það gerðardómur og á að fara eftir anda laganna; því ber fyrst og fremst siðferðisleg skylda til þess, að athuga þetta deilumál sem gerðardómsmál, með rjettsýni og sanngirni frá öllum hliðum.

Jeg vil ekki drótta neinu að þessum h. þm. V.-Ísf. En maður má ekki styðja umkvartað og umþráttað gildi kosningar hans, nema maður sje sannfærður um, að maður með því sje að styðja rjettan málstað. Jeg sje heldur ekkert í hættunni fyrir hann, þó að kosningunni sje vísað heim. Hafi hann þá meiri hluta fylgi við endurkosningu, verður hann löglegur þingmaður kjördæmisins, og kemur hingað bráðlega aftur, en hafi hann það ekki, á hann heldur ekki að vera þingmaður.

En það sem á þessu kosningarlagasvæði umfram alt verður að girða fyrir með lögum, er það, að frambjóðandi sitji í kjörstjórn og úrskurði um greidd atkvæði eða atkvæðaseðla, hvort góðir sjeu og gildir eða ekki, og dæmi þannig í sjálfs sín sök.