22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

37. mál, vörutollur

Steingrímur Jónsson:

Jeg skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara, og ætla nú að gera grein fyrir því, hvernig á honum stendur. Get jeg gert það með tveim orðum. — Jeg get ekki verið með þessu frumv., en get heldur ekki ráðið deildinni til þess að fella það. Get jeg sagt það sama um þetta frumv., og jeg sagði um annað frumv., sem var á ferðinni hjer í deildinni fyrir nokkru, að það er hreinasta neyðarúrræði. Það má segja um þetta frumv. eins og kolatollinn, að eigi er hægt að ráða til að fella það, vegna ómögulegleikans á því, að fá auknar tekjur á annan hátt. Það kemur líka fram í frumv. sjálfu, því það á aðeins að vera til bráðabirgða; bara næstu þrjú árin. Þegar frumv., eins og það er nú, er borið saman við frumv. um sama efni, sem var fyrir þinginu 1911, þá sjest fljótt, að frumv. hefur farið verulega fram í þá átt, að lögin, eins og þau eiga nú að vera, verða mikið framkvæmanlegri. Þá sýndi jeg fram á, að frumv. eins og það þá var, var öldungis óframkvæmanlegt. Þá var gjaldið aðeins lagt á lítinn hluta hinnar aðfluttu vöru, en nú er það þó öll varan, eða því sem næst, sem ber gjaldið. Framkvæmanlegleikinn er meiri nú, en hann var áður, og mun jeg víkja að því síðar. — En ekki er ennþá bætt úr öðrum aðalgallanum, sem sje þeim, að gjaldið hlýtur að koma mjög misjafnt niður á vörurnar, hitta miklu óþyrmilegar einstakar vörutegundir heldur en verðtollurinn. Það þarf ekki annað en blaða í verzlunarskýrslunum, og bera þær saman við vöruflokkunina, til þess að sjá þetta. Jeg hef ekki haft tíma til þess, að bera frumv. verulega saman við þær að þessu sinni. En tökum t. d. 6. flokk, þar sem talað er um „aðrar vörur“. Af tonni þeirra er gjaldið 20 kr. Í þeim flokki eru miklar vörur, og margskonar. Mjer dettur í hug, að taka til dæmis, að þar eru hverfisteinar og önnur þungavara við hliðina á dýrgripum og djásnum, gulli og gimsteinum. Og alt ber þetta sama toll: 20 kr. af tonni.

Það liggur nokkuð greinilega í augum uppi, að þetta nær ekki nokkurri átt, og því er brtill. við þennan lið fullkomlega rjettmæt frá þessu sjónarmiði.

Jeg sagði, að þetta frumv. væri framkvæmanlegra, en frumv. 1911. Engu að síður mega menn ekki halda, að það sje lítið verk og ljett, sem hjer er lagt lögreglustjórninni á hendur. Innheimtan mun verða miklu erfiðari, en eftir frv. um árgjald af verzlun, sem hjer var í smíðum í deildinni, og svo frumv. um verðtollinn, sem hjer var felt. Liggur það meðal annars í því, að vörunum er miklu meira flokkað niður. Hjer eru flokkarnir 6 og svo þær vörur, sem undanþegnar eru gjaldinu, en í árgjaldsfrumv. okkar eru eiginlega aðeins 2 skarpt aðgreindir flokkar, auk þeirra vara, sem undanþegnar eiga að vera gjaldi.

Innheimtan verður afar erfitt verk, en þó framkvæmanlegt, eins og frumv. liggur nú fyrir, og að líkindum unt að fá trygg skil fyrir gjaldinu, ef skipsskjölin eru þannig úr garði gerð, sem gert er ráð fyrir, og ef lögreglustjórar ganga hart eftir, og láta rannsaka vörurnar á kostnað móttakanda, svo sem 7. gr. gerir ráð fyrir.

En að þetta skuli vera einasta úrræðið til að útvega landinu svo miklar tekjar, að því sje borgið í bráðina, svo að stjórnin þurfi ekki að segja, að landið sje gjaldþrota, hlýtur að vekja hjá öllum alvarlegar hugleiðingar, og virðist vera sorglegur vottur þess, að hjá stjórnmálamönnum þessa lands sje engin alvara nje ákveðin stefna, að því er fjárhagsmál snertir.

Því fremur segi jeg þetta, sem það er öllum kunnugt, að fyrir hafa legið hjer á þinginu góð mál, sem ekki hafa náð fram að ganga, svo sem frumv. um verðtoll, auk þess sem tillögurnar frá skattamálanefndinni frá 1907, gátu gefið talsverðan tekjuauka.

Þetta eru þá ástæður mínar fyrir því, að jeg get ekki greitt þessu frumv. atkvæði mitt, þótt jeg vilji ekki greiða atkvæði á móti því.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um stefnu mína í aðalatriðum málsins.

En jeg vil minnast dálítið á brtill., og er þá fyrst að drepa á brtill. við 6. lið 1. gr., að í stað: „1. kr.“ komi: 50 aurar.

Þegar frumv. kom fyrst fram í Nd., var gert ráð fyrir 50 au. tolli á vörum þeim, sem hjer er um að ræða. Þessu var síðar breytt þannig, að gjaldið skyldi verða 1 kr. Við 3. umr. var þetta samt að færast í sama lag aftur, en var felt með 11:11 atkv.

Þetta var mjög illa farið, því þetta 1 kr. gjald verður svo ósanngjarnt, að það má næstum heita frábolun frá að kaupa sumar vörur í þessum flokki. Vörurnar, sem þetta kemur hart niður á, eru meðal annars ýms byggingarefni. Auk þess gera lögin ráð fyrir, að umbúðirnar sjeu taldar með.

Mjer er kunnugt um, að einn þingmaður í Nd. gat ekki greitt frumvarpinu atkvæði sitt einmitt vegna þessa liðs.

Þá kem jeg að breytingatilögunni viðvíkjandi innheimtulaununum.

Jeg hef áður getið um það, að innheimtan væri örðug vegna skipaskjalanna, sem ekki eru sjerlega nákvæm eða ábyggileg. Það kostar því mikinn tíma að fást við þau. En enda þótt skjölin væru góð, þá verður þó að taka hverja farmskrá og skifta henni niður eftir þessum 7 flokkum, og er þetta mjög mikið verk. Og hvernig eiga lögreglustjórar að geta slíkt fyrir jafn litla borgun (3%). Jeg hygg, að það muni þá eigi sjaldnar hjer eftir en áður geta komið fyrir, að við lögreglustjórar fáum athugasemdir frá stjórnarráðinu, og orðsending um það, „að borga sjálfir það, sem á vantar, og við höfum reiknað skakt.“

Jeg veit, að 2 aðrir lögreglustjórar hjer á þinginu eru sömu skoðunar um örðugleikana á þessu.

Það getur verið, að þessi innheimta geti borgað sig hjer í Reykjavík; en þar sem sami lögreglustjóri hefur margar hafnir, verður niðurstaðan sú, að þeir hljóta að leysa þetta verk ver af hendi en önnur störf, og er það aðeins eðlilegt, að svo verði fyrir jafnlitla borgun, enda þótt þeir hafi allan vilja á að gjöra það vel.

Af þessum ástæðum hef jeg fylgt því fram, að breyta ætti þessu á þá leið, sem brtill. fer fram á.

Þá er að minnast á niðurlag 1. greinar, þar sem farið er fram á, að broti úr tolleiningu, sem ekki nemur ½, skuli slept.

Þetta getur verið beinlínis háskalegt, að því er snertir álnavöru. þar er gjaldið 3 kr. af hverjum 50 kílógr., og menn geta því komizt hjá gjaldinu með því, að láta senda sjer bögla, sem ekki ná 50 pd. þunga.

Það er óskiljanlegt, að þetta skuli ganga svona í gegn um Nd. Því þótt þetta gæti átt sjer stað með smáar tolleiningar, svo sem sykurpund eða kaffipund, þá er það annað, því hvað þessar vörutegundir snertir, þá nemur það svo litlu, sem á þann hátt sleppur hjá tolli.

Loks skal jeg drepa á það, að mjer virðist 3. liður 1. gr. óheppilega orðaður, og alnauðsynlegt, að skotið sje inn á eftir orðinu: „fatnaður“: „þar með talinn skófatnaður“.

Jeg held, að það hafi ekki mikla þýðingu, þótt deildin lýsi því yfir, að hún vilji ekki gleyma skófatnaðinum, ef ekki er hægt að koma honum með undir liðinn af öðrum ástæðum. Áreiðanlega er þetta orðalag vafasamt, því upptalningar liðsins byrja með vefnaðarvöru.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar meir. Jeg hef þannig skýrt frá afstöðu minni í þessu máli.

Þá var klukkan orðin 3 og 45 mínútur, og var gert fundarhlje til kl. 51/2., síðdegis.