26.08.1912
Sameinað þing: 8. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

Þingslit

Ráðherra hafði ákveðið að slíta þingi mánudaginn hinn 26. ágúst, og var 8. fundur sameinaðs þings haldinn þann dag. Forseti skýrði frá störfum þingsins á þessa leið:

Alþingi 1912 hefur haft þessi mál til meðferðar:

A. Frumvörp

1. Stjórnarfrumvörp:

a. afgreidd sem lög 7

b. feld 4

c. ekki útrædd 4 15

2. Þingmannafrumvörp:

a. afgreidd sem lög 20

b. feld 15

c. ekki útrædd 19 54

B. Þingsályktanir

1. samþ. og afgr. til ráðh. 15

2. samþ. en ekki afgr. til ráðh. 15

3. feldar 7

4. teknar aftur 2

5. ekki útræddar 4 31

C. Fyrirspurnir bornar upp 4

D. Rökstuddar dagskrár bornar

undir atkvæði 11

Að lokum ávarpaði forseti þingið á þessa leið:

Að vísu hefur þetta aukaþing verið haldið vegna þess, að stjórnarskrárfrumvarp var samþykt á síðasta þingi. En aðalstarf þess hefur verið að finna leið til að útvega landssjóði tekjur í skarð þeirra, sem hann missir vegna aðflutningsbannsins á áfengi, enda eru þau lög, er að þessu marki stefna, ein helztu lögin, sem afgreidd eru frá þinginu að þessu sinni, sjerstaklega vörutollslögin; þá eru og lögin um lotterí, sem telja má eins konar happadrátt, ef á land kemur. Það verða samt eflaust misjafnir dómar um bœði þessi lög, en einum þýðingarmiklum lögum frá þinginu hygg jeg að muni verða yfirleitt vel tekið, á jeg þar við ritsíma- og talsímalögin.

Þá nefni jeg síðast, en ekki sízt þá ályktun þessa þings, að fela hæstvirtum ráðherra, að leita nýrra samninga um sambandsmálið. Það hafa orðið þau tíðindi á þessu þingi, að mikill þorri þingmanna hafa gjört samtök um að reyna að leiða þetta mál til lykta. Í sambandi þar við hefur það orðið ofan á, að láta stjórnarskrármálið bíða, þangað til sjest, hvort líkindi eru til, að samningar takist um samband milli landanna.

Þess óska jeg, og undir þá ósk vona jeg, að allir taki, hvern veg sem þeir vilja fara í sambandsmálinu, og hvernig sem þeir líta á það, — að þessu máli ljúki þannig, að farsællegt verði fyrir land og lýð.