25.07.1912
Efri deild: 8. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

Ráðherraskipti

Kristján Jónsson. Jeg hef þegar skýrt háttv. deild frá því, að jeg hafi sótt um lausn til konungs, frá ráðherraembættinu. Og í gær fjekk jeg svolátandi símskeyti sem andsvar:

„Deres Begœring om Afsked i Naade fra imorgen at regne bevilges.“

Christian R.

Svo jeg vík þá úr ráðherrasæti.

Þá gekk hinn nýskipaði ráðherra, Hannes Hafstein að ráðherrastólnum, kvaddi sjer hljóðs og flutti svolátandi ræðu:

Jeg hef í gærkvöldi móttekið svohljóðandi símskeyti frá hans hátign konunginum, sem svar upp á þegnsamlega tillögu hjeðan:

„Jeg udnævner Dem til Islands Minister fra imorgen at regne.“

Christian R.

Þegar jeg samkvæmt þessari skipun tek aftur sæti í þessum stól, geri jeg það í fullu trausti þess, að sá bugur hafi fylgt svari meiri hluta þingsins við eftirgrenslun fráfarandi ráðherra fyrir skemstu, að hann að sjálfsögðu vilji styðja hið sama, sem hann veit og vissi, að er aðaláhugamál mitt nú, þ. e. að reyna eftir megni að vinna að því, er miðar til að efla frið í landinu, ekki aðgerðaleysisins og kyrstöðunnar frið, heldur frið til þróunar og starfa. Það eru ekki aðeins skóglendurnar okkar, sem þurfa frið, til þess að gróðurinn verði ekki tómar kræklur. Þjóðlífið þarfnast hans vissulega ekki síður. Þjóðin hefur ekki efni á því, að önnur höndin rífi niður það, sem hin byggir.

Horfurnar eru að ýmsu leyti ískyggilegar, ef ekki breytist von bráðar til batnaðar. Fjárhagsástandið er því miður alt annað en gott. Jeg á þar eigi aðeins við fjárþörf og fjárþröng landssjóðsins, þó að hún sje mjög brýn og þarfnist bráðra bóta, heldur og sjerstaklega við peninga- og lánstraustsástand landsins yfirleitt. Úr fjárþröng landssjóðs má bæta, að minsta kosti í bráðina, með nýjum lögum um auknar tekjur honum til handa, og jeg treysti því, að þó að skiftar hafi verið skoðanir um, hverjar leiðir til þess sjeu heppilegastar, þá muni takast að ná samkomulagi á þessu þingi um eitthvað það, er bæti úr bráðustu þörf, enda sjest það þegar á framkomnum frumvörpum, að ýmsir háttvirtir þingmenn hafa hug á því, að ráða fram úr vandkvæðunum, og get jeg þess með þakklæti.

En því aðeins þolir þjóðin auknar álögur, að hún geti neytt krafta sinna og notað auðsuppsprettur sínar. Hvarvetna blasa við nýir möguleikar, arðvænar leiðir til sjós og lands. En aflið til að hagnýta þær er langt frá því að að vera nægilegt, þó að sízt sje fyrir það að synja, að talsverðu hefur verið áorkað síðari árin. Peninga vantar, lánstraust vantar, íslenzk verðbrjef eru orðin óseljanleg á útlendum markaði, og samhygð með menningar- og framfaraviðleitni þjóðarinnar sýnist þverrandi. Hvers vegna? Jeg er sannfærður um, að það er ekki ofsagt, að ein af aðalástæðunum til þess sje stöðug sundrung, deilur og flokkadrættir í landinu inn á við, samfara óloknum deilumálum út á við, sem veikja öryggistilfinninguna og vekja óhug, auk þess sem slíkt alveg ómótmælanlega dregur úr menningarstarfi þjóðarinnar og þar með heftir eitt aðalskilyrðið fyrir því, að geta fengið nægt veltufje, sem sje: menninguna, sem til þess þarf, að kunna að hagnýta sjer lánstraust rjettilega.

Það er sannfæring mín, að eitt af því allra fyrsta, sem gera þarf til þess að ráða bót á þessum meinföngum, sje það, að fá sem fyrst viðunanlegan enda á deilumáli voru við bræðraþjóð vora, Dani, um samband landanna, sem svo lengi hefur dregið hugann frá öðrum opinberum málum, og á síðustu árum því miður orðið að eldsneyti í innanlandssundrung og baráttu; þess vegna virðist mjer þetta þing ekki mega líða svo, að ekki sje eitthvað aðhafzt í þá áttina, að taka aftur upp samninga um sambandsmálið. En skilyrðið fyrir því, að þeir samningar geti orðið upp teknir með von um góðan árangur, er það, að vjer sameinum kraftana allir, er ekki viljum skilnað eða skilnaðarígildi, svo að vjer getum haft nýja trygging fyrir því, að málið fari ekki í mola í höndum vorum. Slíka trygging þarf eigi aðeins gagnvart meðsemjendum vorum, Dönum, sem ella mundu ófúsir til nýrra tilboða, heldur sjerstaklega vegna sjálfra vor, svo að vjer eigum það ekki á hættu, að sigla málinu til nýs skipbrots eftir á, er viðunanlegu samkomulagi væri náð; því þá væri ver farið en heima setið. — Þess vegna gleður það mig mjög, að svo margir háttvirtir þingmenn af báðum aðalstjórnmálaflokkum landsins og utan flokka, hafa lýst því yfir fyrir skemstu, að þeir, í þeim tilgangi að tryggja framgang nýrra samninga milli Íslands og Danmerkur um samband landanna, vilji ganga í föst samtök um að vinna að því, að leiða sambandsmálið sem fyrst til sæmilegra lykta, eftir atvikum með þeim breytingum á frumvarpinu 1908, sem ætla megi að verði til þess, að sameina sem mestan þorra þjóðarinnar um málið og jafnframt megi vænta samkomulags um við Danmörk.

Jeg treysti því, að þessi samtök komist á og nái tilgangi sínum, að tryggja framgang þess máls, sem er eitt höfuðskilyrðið fyrir því, að tryggja friðinn inn á við, sem aftur er skilyrði fyrir heilbrigðum vexti, hagsæld og sjálfstæðri menning þessa lands.