18.07.1912
Neðri deild: 3. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

Starfsmenn þingsins

Ráðherrann. (Kr.J.):

Eg skal leyfa mér að ávarpa háttv. deild nokkrum orðum um mál það, er valdið hefir því, að þing var rofið síðast og þetta þing kvatt saman, sem sé stj.skrárfrv. síðasta þings. Landsstjórnin hefir látið prenta þetta stjórnarskrárfrumvarp og býta því út meðal þingmanna, eins og það var samþykt á síðasta þingi. Ennfremur hefir hún, til leiðbeiningar og hægðarauka, í sambandi við þetta frv., látið semja uppköst að þrem öðrum frumv., sem nauðsynleg yrðu, ef þetta frv. kynni að verða samþykt. En ekkert af þessum frumv., og eigi heldur stjórnarskrárfrv. er þó lagt fram sem stjórnarfrv., heldur að eins til athugunar þingmönnum. Verði því málið ekki tekið fyrir af þingmanna hálfu, kemur ekkert stjórnarskrárfrv. fram. — Þessu víkur svo við, að Hans Hátign konungurinn hefir ekki viljað ljá samþykki sitt til þess, að frv., eins og það liggur fyrir frá síðasta þingi, verði lagt fyrir þingið af hálfu stjórnarinnar. Það, sem því olli, var úrfelling ákvæðisins um setu Íslandsráðherra í ríkisráði Dana. Að vísu hafði eg átt tal um þetta við hinn látna konung vorn, Friðrik hinn 8., í fyrra vor, og hafði þá von um það, að hann mundi samþykkja frv.óbreytt, en með vissu fororði, því fororði, að úrfelling ríkisráðsákvæðisins hefði ekki þá afleiðingu, að lög, og mikilsvarðandi stjórnarráðstafanir, er Ísland varða, yrðu ekki borin upp í ríkisráði Dana, en að í þessu efni yrði fylgt sömu reglu eftir sem áður. En nú er hann látinn, og þetta var jafnvel einungis von mín, en ekki vissa. Nú lét hinn nýi konungur vor í ljósi við mig, að hann gæti eigi fallist á úrfellingu ríkisráðsákvæðisins úr stjórnarskránni, nema því að eins, að samtímis væri gerð skipun á hinu ríkisréttarlega sambandi milli Íslands og Danmerkur, með samhljóða ákvæðum hins íslenzka Alþingis og hins danska ríkisþings.

Þessa skýrslu hefi eg viljað gefa Alþingi þegar í byrjun þingtímans, og vona eg að hv. deild taki hana til nákvæmrar yfirvegunar.