26.08.1912
Neðri deild: 39. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

Fundarlok í neðri deild

Forseti (M. A.):

Áður en eg slít fundi vil eg lýsa yfir því að eg finn hvöt hjá mér til að þakka háttv. þingdeildarmönnum fyrir góða samvinnu á þessu þingi. Hæstv. ráðherra, háttv. varaforsetum og skrifurum deildarinnar kann eg beztu þakkir fyrir þá ómetanlegu aðstoð sem þeir hafa veitt mér við verk mitt, og öllum þingdeildarmönnum þakka eg þeirra góðu og prúðu framkomu gagnvart mér. Þegar eg gekk að þessu verki, bjóst eg við að viðvaningsháttur mundi verða á mörgu hjá mér, en það hefir borið minna á því en eg gerði ráð fyrir í byrjun og þakka eg það góðvild og mannúð háttv. þgdm.; þeir hafa tekið vilja minn fyrir verkið. Hér sem oftar hefir farið svo að við að kynnast mönnum betur hefi eg fengið æ meiri mætur á þeim, og kemur þetta ef til vill til af því að eg hefi æft sjón í að sjá það góða hjá þeim. Eg skil við alla þingdeildarmenn með þakklátum og hlýjum huga, og er gott heim að hverfa með þeim huga. Guð gefi blessunarríkan ávöxt af starfi voru!