22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

37. mál, vörutollur

Jón Jónatansson:

Með nokkrum orðum vildi jeg skýra afstöðu mína gagnvart frumv. þessu.

Jeg gat þess hjer um daginn, er kolatollurinn var til umræðu hjer í háttv. deild, að jeg teldi, að allar uppástungur til skattálagningar er lægu hjer fyrir þinginu, væru að mínum dómi óyndisúrræði, og að okkur mundi ekki takast það fremur en öðrum þjóðum, að leggja toll á allar aðfluttar vörur án þess að hafa hjer tolleftirlit.

Jeg veit ekki, hvað veldur hjer ráði þingsins, hvert það er heldur vilji til þess að bæta úr fjárhagsvandræðunum, eða hvert það er kepni einstakra manna til þess, að koma fram tillögum sínum. En hvað sem hjer veldur, þá er það ljóst, að verði frumvarp þetta samþykt, þá er endirinn slæmur.

Jeg vil víkja nánar að því, hvað hjer muni valda, því það virðist vera erfitt útgöngu með að hjálpa landssjóði til að afla sjer tekna, og allar uppástungur, sem hjer hafa komið fram, eru gallaðar, óundirbúnar og koma fram meir eða minna óhugsaðar, og því ilt að sætta sig við þær.

Hjer held jeg, að kepnin valdi mestu um það, hver úrslitin verða.

Frumv. um toll á kolum var felt hjer í háttv. deild sem þrautalending, er grípa ætti til, ef alt annað færi illa, og við, er því frumv. fylgdum, litum svo á, að ef það hefði orðið að lögum, þá hefði unnizt tími til að finna betri leiðir og vanda betur frágang laganna, en kepnin veldur því, að þetta frumvarp um kolatollinn nær ekki fram að ganga.

Kepnin og ofurkappið um þessi mál hefur lýst sjer utan þings og innan þings. Í sambandi við þetta skal jeg benda á undirtektirnar undir tillögur milliþinganefndarinnar, sem jeg raunar var ekki með óbreyttum, hversu mikill geysingurinn var á móti þeim, en mikið minna af athygli og umhugsun. Hjer var æsingurinn alt ofmikill, og í Reykjavík þuldu allir móti einkaleyfinu eða einokuninni.

En nú er komið annað mál upp, fjelag það, er hefur hjer steinolíu til sölu, og hefur hjer einskonar einokun á henni, hefur nú hækkað steinolíuna svo í verði, að beinn voði stafar af því; mótorbátaútvegurinn í hreinum voða, en þá furðar mig á því, að hjer í Reykjavík skuli ekki hafa nokkur rödd heyrzt hreifa mótmælum; þar veldur máske, að nú er gasið komið hjer, og steinolían því minna notuð (Sigurður Stefánsson: samanber „kolatollur“ — „sveitabændur“). Það er óþarft að segja það, því það var margtekið fram, er kolatollurinn var hjer til umræðu, að hann ætti að eins að vera í bili, þar til önnur betri skipun kæmist á og kæmi hann hart niður á sjávarútgerðinni, þá gerir þetta frv. það margfalt fremur.

Engu skiftir það að mínum dómi, hvort að frv. þessu er breytt eða ekki. Grundvöllur sá, er frv. byggir á, er óhafandi að öllu, og því gerir það ekkert til, hvert einum við meir eða minna í fúabyggingu þessari er grautfúinn eða ekki.

Eina br.till. háttv. nefndar, er máli skiftir, er að lækka um helming gjaldið á 6. lið 1. greinar, nú 1 króna, niður í 50 aur., og er það rjett hvað snertir nokkrar vörur, sem í þeim lið eru, en það er þó ranglátt vegna þess, að í þeim lið er fjölda margt, er þolir mjög hátt gjald, og þess vegna er jeg á móti þessari breytingu. Í þessum lið eru t. d. allar stórar vjelar, er þarf að flytja hingað til landbúnaðar, iðnaðar og sjávarútgerðar. Ef háttv. nefnd hefði viljað lagfæra frumv. í þessum efnum, þá verð jeg að telja, að nær hefði verið fyrir hana, að færa vjelar þessar niður í 2. flokk. Mætti koma með br.till. um það við 3. umr., en jeg tel það þýðingarlítið, eins og jeg tók áðan fram, þar sem grundvöllur frumv. er rammskakkur, og því þýðingarlaust að lagfæra það í einstökum atriðum.

Jeg get og ekki felt mig við, að ekki eru goldnir nema 15 aurar af póstböglum, því að margt verðmætt má flytja með því móti. Yfirleitt kennir víða í frumv. helzt til mikillar ósanngirni og órjettlætis. Jeg get ekki greitt frumv. atkvæði, eins og það er nú. Jeg mun samt ekki greiða atkv. á móti því, að það fari til 3. umr., enda þótt jeg búist við, að árangurslaust sje, að bera upp brtill. við það.