09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

116. mál, ný efni

Valtýr Guðmundsson:

Mér finst þetta mál ekki eins einfalt og háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) vildi telja það, mér finst þvert á móti töluverður vandi að greiða atkvæði um það. Eg ætla mér ekki að fara út í einstakar greinar frv. en einungis geta þess, að svona mál eiga að undirbúast af stjórninni, en ekki að koma óundirbúin inn á þing. Og þó að nefnd verði skipuð í málið sé eg ekki að það muni leiða til nægilega mikils undirbúnings. Eg vil þess vegna leyfa mér samkvæmt 52. gr. þingskapanna að stinga upp á því að málinu verði vísað til stjórnarinnar til athugunar. Með því móti fengi það rækilegri undirbúning og rannsókn, og það er trygging fyrir því að frv. gangi fram í góðum búningi. Hitt skiftir ekki miklu máli hvort það verður afgreitt á þessu þingi eða því næsta. Það er því tillaga mín, að málinu verði vísað til stjórnarinnar samkvæmt 52. gr. þingskapanna.