08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Það væri auðvitað æskilegast að öll eftirlaun mynduðust á þann hátt, að menn, sem sitja í embættum, borguðu í sjóð sér til framfæris á elliárunum. En hvað kennarastéttinni viðvíkur, þá getur þetta ekki komið til mála, því hún getur ekki lagt neitt að ráði af mörkum, svo illa sem henni er launað. Maður getur gert ráð fyrir að kennararnir hafi einhverjar andlegar nautnir, að þeir þurfi að kaupa bækur til að fullkomnast í starfi sínu. En launin eru svo lág að þau fullnægja ekki þessum þörfum.

Kennari, sem hefir 12 kr. kaup á viku, þarf að borga af því 7 kr. fyrir fæði og húsnæði, hefir eftir 25 vikna kenslutíma 125 kr. umfram fæði og húsnæði. Af þessum 125 kr. þarf hann svo að borga öll önnur útgjöld sín, og geta þá allir getið nærri að ekki er mikið eftir til bókakaupa.

Kjör barnakennaranna hér á landi eru svo bágborin, að það er sannarlega mesta nauðsyn að gera eitthvað til að bæta þau. Eg mun því óhikað greiða atkvæði með þessu frv.