13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Stefánsson (frsm.):

Háttv. þingm. Strand. talaði um það, að nefndin ætlaði mönnum 2 kr. í drykkjupeninga í ferðalögum, en jeg vildi vekja athygli á því, að þetta mun að eins nema fyrir beinun útgjöldum þingmannanna; svo sem flutningi til og frá skipi, drykkjupeningum á skipunum o. fl. Eftir reynslu minni í þessu efni er þetta fremur lítið en hitt, en vitanlegt er það, að gjöld þessi eru tiltölulega minni hjá þeim, er koma langt að, en hjá þeim, er skamt eiga að.

Verið getur að nefndin hafi einhversstaðar áætlað of langan tíma fyrir þingm. til Reykjavíkur með skipunum, en henni þótti ekki annað fært, en að áætla með mörgum viðkomustöðum, sem vitanlega tefja skipið, því að þótt í áætlun skipanna sjeu fáir viðkomustaðir, þá er reynslan sú, að þeir eru jafnan fleiri; nú síðast er þm. komu til þings, kom skipið á eina 4—5 staði frá Seyðisfirði til Reykjavíkur, sem ekki stóðu á áætlun; afleiðingin af þessu er sú, að það er ekki hægt, að fara eingöngu eftir áætlun skipanna, heldur eftir venju í þessu efni.

Eftir áætlun nefndarinnar er það sýnt, að ferðakostnaðurinn verður samanlagt lægri en verið hefur.

Ef menn vilja jafna meir dagpeninga þingmanna búsettra í Reykjavík og utan Reykjavíkur, þá er hægt fyrir háttv. þingmenn, að koma með breytingartillögur um það til 3. umr., en nefndin mun taka þær til athugunar, og sjeu þær hóflegar má vera, að hún eða meiri hluti hennar fallist á þær.