16.08.1912
Efri deild: 26. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

101. mál, unglingaskólinn á Ísafirði

Stefán Stefánsson:

Vafalaust tel jeg að hægt sje að ákveða þetta með úrskurði frá stjórnarráðinu. Jeg man ekki betur, en það væri gert, er sambandið var ákveðið milli gagnfræðaskólans og mentaskólans. Fyrst framan af var ekkert samband þeirra í milli, En svo ákvað stjórnin, að þeir, sem útskrifaðir væru frá gagnfræðaskólanum, mættu ganga próflausir í lærdómsdeild mentaskólans. En það er talsvert athugavert við þetta prófleysi. Ef það er heimilað, þarf strangt eftirlit að vera með, að skólinn sje í lagi, og geti að öllu leyti fullnægt þeim kröfum, sem gagnfræðaskólinn gerir til þeirra, er setjast í 2. bekk. En svo verður einnig að taka til athugunar, að algerlega er ómögulegt, að taka fleiri í 2. bekk gagnfræðaskólans, en nú eru. Nú sem stendur eru undir 60 nemendur innskrifaðir í 2. bekk. Í 1. bekk komast ekki fleiri, en eru, og býst jeg við, að neita þurfi 2—3 tugum um inntöku í skólann vegna rúmleysis. En það liggur í augum uppi, að ef nemendum frá unglingaskólanum á Ísafirði verður veitt heimild til þess að ganga inn í skólann próflaust, þá geta komið þaðan svo sem 10—20 manns á ári. Og þá verður að stækka skólahúsið á Akureyri, ef ekki skólans eigin nemendur eiga að víkja fyrir hinum aðkomnu Ísfirðingum, sem heimild hafa til þess að setjast í 2. bekk. Aðrir hvorir verða að minsta kosti að sitja fyrir.