13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

71. mál, kolatollur

Jens Pálsson:

Það var óheppilegt, að jeg skyldi ekki heyra andmæli háttv. 3. kgk. Veit því ekki, hvaða ástæður hann hefur fært fyrir máli sínu. —

Þegar jeg talaði um hagnaðinn, sem við hefðum af útlendu fiskiskipunum hjer við land, þá meinti jeg alls ekki frönsku skipin. Við þau hafa landsmenn lítil mök. En jeg átti aðallega við norsku skipin, sem verzla hjer talsvert og setja hjer upp og selja stundum fisk. — En því hjelt jeg fram og held fram enn, að ef frönsku útgerðarmönnunum þykir 2 kr. tollurinn óbærilega hár, þá munu þeir hafa ráð til þess að komast undan honum, ef á annað borð þeir reikna sjer hag í því.

Þó álít jeg þennan skatt hærri og þyngri en háttv. 4 kgk. gaf í skyn.

Jeg hef leitað mjer upplýsinga um það, hve miklu botnvörpungar eyða af kolum. Kunnugur útgerðarmaður, hefur sagt mjer, að lítill botnvörpungur, sem hefur veitt hjer við land nokkur undanfarin ár, hefur brúkað 17—1800 tonn á ári, og það hefur verið skipakol, en ekki húsakol, því þá hefði það vitanlega orðið mikið meira (Ágúst Flygenring: Ansi hefur hann verið kolafrekur).

Frá einum hinum áreiðanlegasta margreyndasta og viðurkendasta útgerðarmanni hef jeg fengið að vita, að stór botnvörpungur hefur notað 200 tonn á mánuði þá 7-8 mánuði, sem hann befur verið að veiðum hjer við land. En svo þessa 4—5 mánuði, sem hann er hjer ekki, þá er hann meira í förum, og þá er enn meira kynt og enn meira notað af kolum.

Þá er eigi of sagt, að 2 kr. tollur á tonn sje afarmikill og tilfinnanlegur; það verða eitthvað um 3—4.000 kr. á ári fyrir stærri fiskiskip, og tel jeg það fjarstæðu næst, að ganga svo hart að æskilegum, upprennandi atvinnuvegi, sem enn stendur á völtum fótum.

Jeg vil gefa þeim mönnum dálitlar upplýsingar, sem halda því fram, að það sje viðurkennt, sannað og kunnugt, að botnvörpuútgerðin borgi sig bezt, og sje hið hyggilegasta gróðafyrirtæki, sem hjer er til. Jeg hef verið í stjórn fjelags, sem átti botnvörpunginn „Cutt“, og ekki átti því láni að fagna að verða gróðafyrirtæki. Botnvörpungurinn strandaði, og eigendurnir töpuðu stórfje. Svo má nefna fjelagið „Fram“, sem átti „Íslending“, það var hlutafjelag, og skaðaðist það 24—25.000 kr. fyrsta árið, þá hlutafjelagið „Breið“; það tapaði öllu hlutafjenu á tveim árum. Þar voru ekki dugminni menn, eða ráðlausari í stjórn en sjálfur Pjetur Thorsteinsson. Fjelag það var stofnað með nægilegum fjárforða og voru í því margir vel stæðir og duglegir menn, svo sem Sveinn Björnsson og fleiri; þá „Valurinn“. Fjelagið, sem átti hann, rataði þegar á fyrsta ári í skuldabasl. Svo keypti P. J. Thorsteinsson hann og heldur honum úti ennþá. Hef jeg heyrt það sem fullvíst, að hann beri sig ekki enn. — En svo eru það stærri skipin, t. d. eins og „Jón Sigurðsson“; hann er talinn bera sig, og fleiri, sem eru stór og sterk eins og hann. — En hjer þarf að athuga, að fiskur hefur undanfarin ár verið í mjög háu verði, og mikið hærra en meðalverð, alla tíð síðan innlendir botnvörpungar komu til sögunnar. Og þar sem nú útgerðin kostar á ári þetta 200 þús. kr., þá er augljóst, að mikið er hjer í hættu; einkum þar sem gróðinn seinni árin hefur eingöngu stafað af háu fiskverði. Og þegar nú að fyrirtækin standa ekki á rótgrónum efnum, þá er illt að íþyngja þessum atvinnuvegi með þungum álögum. Við höfum heldur ekki svo mikið af dugnaðarfyrirtækjum hjer á landi voru, sem geta gefið mörgum mönnum atvinnu og hag, og myndað geta auðmagn í landinu, svo við værum ekki til eilífðar dæmdir til þess að hokra í fátækt og skera alt við nögl.

Jeg vona, að þessar upplýsingar sýni, að botnvörpuútgerðin er enginn óskeikull stórgróðavegur, svo hægt sje að gramsa í honum með þungum álögum. Og hvað snertir það, að skatturinnn komi ekki jafnt niður, þá er jeg þakklátur háttv. 3 kgk. fyrir hin skýru ummæli hans um það efni. —

Rök flutn.m. þóttu mjer kynleg, er hann hann vildi gera orð mín ómerk og tortryggileg, þarsem hann hjelt því fram, að jeg væri ókunnugur kjörum bænda og fátæklinga hjer á landi. Hann sagði mig lifa hjer í hlýindum og allsnægtum, og fleira var það, sem hann sagði með allskáldlegum orðum.

Jeg get nú gefið nokkrar bendingar um, hve þessi fullyrðing framsögumanns sje áreiðanleg. — Jeg er uppalinn í sveit. Kom á 16. ári úr Dölum á Eyrarbakka og var til tvítugs á Stokkseyri. Þar er sjávarútvegur mikill og margt fátækra sjómanna. Þá var jeg í Arnarbæli í Ölvesi; þá á Þingvöllum; þar var vitanlega enginn sjávarútvegur. Þvínæst var jeg á Útskálum; þar um slóðir er mikill útvegur, og þar var mikilli eymd og fátækt að kynnast fyrir prest, sem árlega húsvitjaði og ljet hag almennings til sín taka. Í Görðum hef jeg verið í 16 ár. Meirihluti manna í því prestakalli eru fátæklingar. Það eru sannarlega ekki allt velmegandi menn, sem þar fara á flot. — Og jeg hef allan fullorðinsaldur minn gegnt þeirri stöðu, sem gefur mjög gott tækifæri til þess að kynnast högum fátœklinganna. Lítum nú á háttv. flutn.m. Hann er alinn hjer upp í Reykjavík. Komst síðan til Hafnar. Aðeins þrjú síðustu árin hefur hann dvalið austur í sveitum, þó í kauptúni. Hvaða kynni ætli hann hafi svo af sveitalífi ? Nei. — Það er líkast því, sem eggið ætli að fara að kenna hænunni, ef hann ætlar að fara að fræða mig um sveitalífið hjer á landi og hag fátæklinganna í sjóþorpum og kauptúnum.

Þá kem jeg að þeirri makalausu sönnun hans, sem alveg átti að knúsa mig; sönnun hans um það, að fátæklingar þyrftu ekki kol. Þó játaði hann því í öðru veifinu, að fátæklingarnir yrðu hart úti, ef tollurinn kæmist á. En það getur þó hverheilbrigð skynsemi sjeð, að tiltölulega við efnahag þurfa þeir mest kol. Hann segir það svona út í bláinn, að þeir þyrftu ekki kol vegna þess, að þeir hefðu hvorki efni á að kaupa kol nje ofna. Er það sönnun fyrir því, að óhætt sje að gera þeim kolin dýrari, — annað eins öfugmæli og það, að þeir hafi ekki efni á að leggja í ofninn, svo að dugi til upphitunar ljelegum herbergjum þeirra; kol sjeu þeim og dýrkeypt, hvort eð sje, nema rjett til að elda matinn ; það sje óhætt að gera þeim kolin enn dýrari af því þau sjeu þeim ofdýr undir. Hvað er fjarstæða og lokleysa ef ekki þetta? Jeg fyrir mitt leyti hjelt, að frekar ætti að hlynna að þeim, svo þeir gætu fengið kolin í ofninn. Og einmitt þetta, hve erfitt þeir eiga, sje sterk ástæða til að hlífa þeim við þessu gjaldi. —