22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

37. mál, vörutollur

Sigurður Eggerz:

Hjer gerist ekki langrar ræðu þörf, því háttv. þingmenn, sem minst hafa á þetta frumvarp, hafa flestir talað líkum orðum um það, talað um það, eins og það væri dauðadæmt, þó þeir, að því er virðist, ætli að láta það lifa á atkvæðum sínum. Mjer heyrðist á háttv. 3. kgk., að hann taldi, að jeg væri að sakna verðtollsins, sem andaðist í þessari háttv. deild. Þetta hefur þó ekki verið meining mín, en hinsvegar tel jeg rjett, að þetta frumvarp fari sömu leið af ástæðum, sem þegar hafa verið margtilgreindar. Og fyrir því þurfum vjer ekki að drukna, eins og háttv. 3. kgk. gaf í skyn, því eftir er enn þrautalendingin: kolatollurinn. Og tækjum við hann, erum við einmitt á þeirri braut, sem háttv. 3. kgk. taldi heppilega, gamla tollveginum með þeim tollstofnum, sem ekki þurfa aukið tolleftirlit. Háttv. 3. kgk. sagðist ekki sjá, að líkur væru til, að hægt væri, að koma heim tolluðum vörum undir flokka, sem lægri tollar væru í. Tollsvik í þessari mynd virðist mjög einfalt að framkvæma, og því furðar mig, að jafn glöggur maður og 3. kgk. skyldi ekki sjá þetta. Því hvað er auðveldara en að flytja vörur þær, sem taldar eru undir nr. 3 og nr. 6 í 1. gr., og sem tollurinn er af kr. 3,00 og kr. 1,00, í umbúðunum, tunnunum sem vörurnar í flokki, sem aðeins er 10 au. tollur af. Þetta virðist mjer nokkurn veginn ljóst. Hinsvegar átti dæmið um steinolíuna ekki vel við, því hún er í lægsta flokki, og því ekki ástæða að ætla, að hún verði flutt til. Háttv. 3. kgk. þótti jeg lýsa jarðarför farmgjaldsfrumvarpsins 1911 með of þungum orðum. Jeg þarf þó ekki annað máli mínu til stuðnings, en að vísa til alþingistíðindanna. Jeg skal ekki þreyta háttv. deild á löngum lestri. Jeg skal aðeins minna á eina fallega setningu úr tíðindunum. Það var háttv. 4. kgk., sem allir vita að er orðvar maður, sem viðhafði hana. Hann kallaði frumv. þetta hvorki meira nje minna en draumóra hálfruglaðs manns. Það er kanske of mikið, að kalla þessi orð ókristileg, en kristileg eru þau í öllu falli ekki.

Háttv. framsögum. var sá eini, sem hrósaði frumv. þessu, þó hægt færi. Hann taldi kosti þess, hve lítil hætta væri á tollsvikum samkvæmt því. Áleit, að það gæti als ekki komið til tals, að hœgt væri að skjóta hátolluðum vörum undir lægri flokkana, og nefndi sem dæmi gaddavír og kol. Dæmin voru ekki vel valin, því á þessum vörum dettur engum í hug að tollsvik verði við höfð, enda gaddavírinn í næst lægsta flokki. Nei, en tollsvikunum er markað nóg svið samt. Jeg vil aðeins benda á það, sem jeg tók fram áðan, að hægt væri að koma vefnaðarvörunni undir fyrstu flokkun, og ljett væri að skjóta ýmsu úr stóru molaskrínunni undir 6. lið, undir 1. flokkinn. Annað mál er það, að jeg veit, að háttv. þm. er svo góður og guðhræddur maður, að hann á erfitt með að trúa á svik, en svona er það nú samt; það eru til menn, sem flytja úr einum flokknum í annan, ef þeir hafa nokkurn verulegan hag af því. Háttv. framsm. stiklaði ljett yfir rangsleitni í þessu frumv. og taldi erfitt að búa til rjettláta tolllöggjöf. Má vera að svo sje, en þegar verið er að demba 1/2 miljón á landslýðinn á fjárhagstímabilinu, þá mega löggjafarnir þó ekki loka augunum fyrir allri sanngirni, jafnvel þó þeir brenni sig um leið. Háttv. framsögum. mintist á kolatollinn. Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í það mál, jeg er svo margbúinn að sýna, að hann er einfaldasta og óbrotnasta leiðin út úr þessum fjárvandræðum, en það fer stundum svo, þegar menn brjóta heilann mikið um eitthvert mál, þá dylst mönnum oft einfaldasta lausnin, þó bein sje.