03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Björn Kristjánsson:

Svo vil eg taka það fram til skýringar, að þegar um skoðun á þilskipi er að ræða, hvort það sé gallað, þá þarf sjaldnast að gæta að göllunum í lestarrúminu innanborðs, heldur aðallega í barkanum eða í afturstafni eða rétt undir þilfari. Þetta gerir það að verkum, að eg kýs heldur að 1. málsgrein falli burt, en aðalefni hennar sé skeytt við 2. gr. frv. Eins er það með gufuskip, að þar er ekki aðalgallana að finna innanborðs í lestarrúminu, hvort sem það nú heldur er að nagla vantar eða plata er ryðguð. Að því er altaf leitað utanborðs og því óþarfi að vera að gera mönnum þá tímatöf og ómak að losa lestarrúmið að óþörfu.

Eg er þakklátur nefndinni fyrir undirtektir hennar undir 5. og 6. breytingartillöguna, til þess að mönnum sé ekki gerður mikill kostnaðarauki að óþörfu.

4 atriðið hefir því miður ekki fundið náð fyrir nefndarinnar augum. Hún kýs heldur að skoðunarmenn héðan úr Reykjavík þurfi að fara t. d. suður í Sandgerði til þess að skoða þar mótorbáta, því að flestir eru þeir þiljaðir, þótt þeir séu smáir. Yfirleitt virðist mér það mjög ranglátt að taka Gullbringusýslu eina undan að því er sérstaka skoðunarmenn snertir — staðnum er gert mikið óhagræði með þessu ákvæði, — og þar eð ekki er hægt að tryggja það, að skoðunarmenn úr Reykjavík, sem nefndin álítur muni vera þá beztu á öllu landinu, geti skoðað öll skip úr hvaða sýslu sem er, þá sé eg ekki neina ástæðu til þess að gera þessa einu undantekningu, sem líka er hætt við, að geti orðið misjafnlega liðin. Líf manna t. d. suður í Garði er þó ekki mætara en líf allra annara landsmanna. Eg vona því að hv. deild samþykki þessa br.till. mína, sem fer fram á það, að Gullbringusýsla fái sína eigin skoðunarmenn eins og aðrar sýslur. Og eg er viss um það, að ef hv. flutningsm. athugar málið, þá sér hann að þessum stað er bæði gert mikið óhagræði og kostnaður — auk þess, sem menn geta tafist frá fiskiveiðum við það að þurfa að sækja skoðunarmenn langar leiðir, og þeir þá kannske uppteknir af öðrum skoðunagerðum, sem verða látnar ganga fyrir. Þó að sagt hafi verið — sem eg ekkert skal dæma um — að ein skoðunargerð í Hafnarfirði hafi verið ófullkomin, þá virðist það bitna á allri sýslunni. Slíkt getur alstaðar komið fyrir. Það verður að taka fólkið eins og það er, upp og niður á öllu landinu — og eigi svik sér stað, þá að herða á ákvæðum almennra laga. Eg vona því að hv. framsögum. og hv. deild greiði þessari brt. minni atkvæði.