03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Framsm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg þarf ekki að deila við hv. þm. G.- K. (B. Kr.) um það, að honum hlýtur að vera fullnægt með þeim brtill., er nefndin hefir komið fram með. Með þeim er komið í veg fyrir þá agnúa á frv., sem hann og háttv. þm. Vestm. (J. M.) hafa fundið á því, þar að lútandi að oft sé bæði óþægindi og óþarfi að skipin séu skoðuð tóm. Eg er að vísu þeirrar skoðunar, að helst ætti það að vera skilyrðislaus skylda að skip væru altaf skoðuð tóm, en hefi þó komið með þessa brtill., að skjóta orðunum „að jafnaði“ inn til þess að gera hv. þm. ánægða.

Þá er ekki eftir nema 4. brtill. hv. þm., sem við erum ósammála um. Eg vil vona það, að hv. þm. trúi þeim orðum nefndarinnar, að hún hefir alls ekki sett það ákvæði, sem þar um ræðir, inn í frv. í þeim tilgangi að „brennimerkja“ þetta hérað á nokkra lund. Henni gekk það eitt til, að mestar líkur eru til þess, að skoðunarmenn séu beztir hér í Reykjavík — annað ekki. Helzt kysum við auðvitað að landinu væri skift í ákveðin skoðunarumdæmi — líkt og er um fiskimatsumdæmin — en það sáum við okkur ekki fært. Einnig var það ókleift að hafa landið eitt umdæmi undir skoðunarmönnum héðan úr Reykjavík, vegna þess hve stórt það er og skipin leggja út á misjöfnum tíma. En þá var það eitt fyrir hendi, fyrst ekki fékst það bezta, að taka hið næst bezta og láta skoðunarmenn úr Reykjavík skoða skipin úr þeim héruðum, sem þeir geta náð til — og það er einmitt Gullbringusýsla. Næsta hérað er Borgarfjörður, en þar er engin útgerð, að því er mér er kunnugt um. En verði svo með tímanum, þá er altaf hægt að leggja hana undir Rvík.

Út af þeim orðum hv. þm. (B. Kr.), að það væri óaðgætni og kostnaðarauki fyrir héraðið að þurfa að sækja skoðunarmenn úr Reykjavík suður í Sandgerði til þess að skoða þar þilvélaskip, þá skal eg minna hann á það, að útgerðarmönnum er ekki ætlað að borga fyrir það einn einasta eyri — og þar með er sú mótbára hv. þm. einnig fallin.

Fleiri athugasemdum held eg ekki að sé að svara í þetta skifti.