03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Jón Magnússon:

Háttv. 1. þm. Rvk (L. H. B.) gerði lítið úr því, að það gæti orðið óþægilegt fyrir Gullbringusýslu að þurfa að fá skoðunarmenn úr Reykjavík til þess að skoða báta sína og skip, því að eins og hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) tók fram, eru flestir mótorbátar sem þaðan ganga þiljaðir. Ef ekki stæði svo á, að flest skip legðu út á sama tíma úr þessum héruð- um — og bátavertíðin byrjar vanalega á líkum tíma —, þá yrðu kannske ekki mikil vandkvæði á þessu ákvæði. En eg hygg, að talsvert hlé eða dráttur gæti orðið á, ef skoðunarmenn þyrftu fyrst að skoða öll skip sem héðan ganga, og halda síðan suður eftir. En þó að útnefna þyrfti fleiri skoðunarmenn — og þá væri að mínu áliti eins gott að bæjarfógetinn í Hafnarfirði útnefndi þá héðan.

Þá felli eg mig betur við brtill. hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) um það, að 1. málsgr. falli burtu. Mér finst hún með öllu óþörf. Skoðunarmenn geta altaf heimtað, að skipin verði sett á land, ef þeim þykir þörf, eða neita að öðrum kosti að gefa skoðunarvottorð. Mér skilst líka það helst vera meining nefndarinnar með þessu ákvæði að hjálpa upp á einurð skoðunarmannanna, en þess held eg þurfi ekki við, ef það eru skylduræknir menn og öðru er ekki gerandi ráð fyrir.

Að svo mæltu hefi eg ekki frekara um málið að segja að sinni.